Fimleikastelpur í æfingabúðum
Fimleikadeild Keflavíkur heldur úti öflugri starfsemi og hefur náð góðum árangri á mótum síðustu ár og eru þær nú að undirbúa sig fyrir átök næsta vetrar. Aðstöðuleysi hefur löngum verið deildinni fjötur um fót, en iðkendur hópfimleika hjá þeim fóru fyrir nokkru í æfingabúðir hjá fimleikafélaginu Björk í Hafnarfirði. Þjálfari þeirra, Heiðrún Sigmarsdóttir, sendi eftirfarandi pistil:
Bjarkarbúðir dagana 4.-7. ágúst
Tromphópar H-1 og H-2 frá Fimleikadeild Keflavíkur
Í Fimleikadeild æfa nú 2 tromphópar en trompfimleikar eru hópfimleikar þar sem iðkendur í fimleikum keppa saman í hóp á þremur áhöldum: Trampolíni, dýnu og dansi. Síðustu ár hefur verið mikil uppsveifla í hópfimleikum á Íslandi og kröfurnar alltaf að verða meiri og meiri og því þarf aðstaða, æfingar og ástundun að vera góð til að hafa möguleika að ná efstu sætum á mótum.
Hjá Fimleikadeild Keflavíkur æfa núna rúmlega 20 stúlkur hópfimleika á aldrinum 12-16 ára. Stelpurnar eru allar mjög efnilegar og geta náð langt ef þær fá tækifæri til þess. Aðstöðuleysi og skortur á reyndum þjálfurum getur þó tafið fyrir framförum og oft ástæða fyrir brottfalli úr fimleikum. Bæði til að sporna við þessu og til að hvetja stelpurnar áfram, ákvað ég að skoða hvort ekki væri hægt að fara með hópana í æfingabúðir. Rætt var meðal annars við framkvæmdastjóra í Bjarkarheimilinu í Hafnarfirði og varð úr að hóparnir fengu að koma í ágúst.
Hafist var handa í vor við að finna góða fjáröflun og styrktaraðila og gekk það fram úr frömustu vonum og þurftu stelpurnar aðeins að borga 1/3 af kostnaðinum úr eigin vasa. Fyrir hönd stelpnanna vil ég nota tækifærið og þakka styrktaraðilum okkar fyrir en það voru: Samkaup, Íslandsbanki, Sparisjóðurinn í Keflavík og Íþróttafélag Keflavík (fyrir 17. júní vinnu).
Farið var í æfingabúðir í Bjarkarheimlið þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar, sjá meðfylgjandi myndir. Við mættum þann 4. ágúst og fórum heim 7. ágúst. Æfingar voru strembnar enda æft 2x á dag í 2 ½ tíma í senn og fengu stelpurnar fljótlega harðsperrur og strengi eftir langan æfingadag, en þegar leið á þá hurfu þær að mestu. Þjálfarar Bjarkanna voru okkur mikil hjálp, þjálfararnir úr Björkunum voru: Steinunn Ketilsdóttir, Hildur Ketilsdóttir, Marín Þrastardóttir og Dmitry Berezovskiy. Þjálfari úr Keflavík var Heiðrún Björk Sigmarsdóttir.
Stelpurnar sem fóru í þessar æfingabúðir voru 18 talsins úr tveimur hópum. Úr H-1 fóru Thelma Rúnars, Thelma Ýr, Kristín, Lovísa, Siddý, Elísa og Elva. Úr H-2 fóru Louisa, Dóróthea, Bryndís, Anný, Sunneva, Anna Margrét, Ásdís, Díana, Jóna Kristín, Hófí og Guðrún Mjöll.
Stelpurnar gistu í Bjarkarheimilinu og tvær nætur en eina nótt í íbúð rétt hjá því Hlín yfirþjálfari félagsins, sem þjálfaði nokkur ár hér í Keflavík, var hvorki meira né minna en 60 ára og var óvænt afmælisveisla í Bjarkarhúsinu þar sem slegið var saman í myndarlega fimleikasýningu sem við fengum að horfa á og veitingar á eftir.
Stelpurnar lærðu margt þessa 4 daga og var þvílíkur munur að geta æft við þessar aðstæður. Tækin liggja alltaf úti, þannig að við þurftum ekki að eyða dýrmætum tíma í taka út og ganga frá áhöldum eins og við þurfum vanalega hér í Keflavík. Þarna var líka allt til alls og var hægt að gera æfingar sem erfitt er að gera með þeim áhöldum sem við eigum. Þegar ekki var verið að æfa fengum við að kíkja í pottinn, svo var farið út að borða, í keilu, bíó o.fl. Þjálfarar og starfsmenn voru alveg frábærir og gerðu þessar æfingabúðir miklu betri en við höfðum búist við. Stelpurnar tóku miklum framförum og margar gerðu æfingar sem þær hafa aldrei gert áður. Þetta var líka góð byrjun á nýju æfingatímabili enda hristist hópurinn vel saman og efast ég ekki um að flestar hafi öðlast meira sjálfstraust og eru betur tilbúnar í slaginn í veturinn.
Aðstaða Fimleikadeildar Keflavíkur kom mikið til tals hjá stelpunum í æfingabúðunum og var því hvíslað að mér að einhvern tímann hefði bærinn lofað deildinni að fá litla salinn á Sunnubraut til einkanota, síðan eru liðin nokkur ár og ekkert hefur gerst. Ef úr því yrði þá myndi það breyta miklu fyrir deildina, því mikill tími fer til spillis í að taka út og ganga frá öllum þessum þungu áhöldum – auk þess sem það fer ekki vel með litla líkama. Áhöldin skemmast líka fyrr við allt þetta hnjasl fram og til baka og meiri kostnaður fyrir deildina við að endurnýja áhöldin. Að mínu mati ætti hér í 11.000 manna bæjarfélagi að vera miklu betri aðstaða til fimleikaiðkunar. Þangað til eitthvað nýtt gerist í aðstöðu okkar þá reynum við bara að líta á björtu hliðarnar og halda áfram að standa okkur vel enda eru bráðefnilegar og hressar stelpur á ferð sem ætla sér að ná langt.
Að lokum viljum við þakka aftur þeim sem styrktu okkur og vonum að fleiri fyrirtæki taki svona vel á móti okkur í framtíðinni. Svo er auðvitað að hvetja alla – bæði stráka og stelpur til að prufa þessa skemmtilegu og styrkjandi íþrótt. Síðan er bara að bíða og vona að við í Keflavík eignumst álíka aðstöðu og Bjarkirnar, eða a.m.k. í áttina J.
Fyrir áhugasama, setti ég niður linka að nokkrum heimasíðum sem tengjast fimleikum: www.keflavik.is/Fimleikar/ www.fimleikar.is www.fbjork.is www.fimleikavorur.is
Fyrir hönd stelpnanna í Tromphópum H-1 og H-2
Heiðrún Björk Sigmarsdóttir, þjálfari.