Fikrar sig upp einherjalistann
Þrisvar sinnum farið holu í höggi á par fjögur holu
Kylfingurinn Hólmar Árnason fór í þriðja sinn á ævinni holu í höggi á dögunum. Ekki nóg með að það sé magnað afrek, þá er það enn merkilegra að Hólmar hefur slegið draumahöggin öll á par fjögur holum, en það er mjög sjaldgæft því þær eru yfirleitt of langar til þess. Í lang flestum tilfellum fara kylfingar holu í höggi á par þrír holum.
Hólmar, sem er með 4,1 í forgjöf, hefur stundað golf síðan hann var sex ára, eða í 22 ár. Hann ól manninn í Grindavík en er núna búsettur í Vogunum. Árni faðir hans dró hann á völinn á sínum tíma. „Pabbi kenndi mér allt sem ég kann. Hann var hörkukylfingur þegar hann var yngri,“ segir Hólmar sem fór fyrst holu í höggi í hitteðfyrra á par fjögur holu. Síðar það sumar þá endurtók hann leikinn á sömu holunni en um er að ræða áttundu holu í Bakkakotsvelli í Mosfellsdal. „Það var nákvæmlega sama kylfa og sama höggið. En sitt hvort vitnið. Í síðara skiptið þá sagði ég við manninn sem var með mér, sem var nýbyrjaður í golfi, nú ætla ég að fara holu í höggi því ég þarf að fá nýtt vitni. Svo bara fór boltinn ofan í,“ segir kylfingurinn léttur í bragði.
Hólmar segir það allt öðruvísi tilfinningu en að hann hafði haldið að fara holu í höggi. „Þetta er af svo löngu færi að maður hefur ekki séð boltann fara í holuna. Maður er ennþá að bíða eftir því að sjá boltann fara ofan í á par þrjú holu. Þetta er þó ótrúlega gaman.“
Þarf sjö draumahögg til viðbótar
Þegar maður fer holu í höggi þá kemst maður í svokallaðan einherjaklúbb. Samkvæmt skráningu klúbbsins þá eru 46 kylfingar á landinu sem hafa þrisvar farið holu í höggi. Sá sem hefur verið iðnastur við kolann hefur níu sinnum afrekað að fara holu í höggi. „Ég á bara sjö eftir til þess að bæta það,“ segir Hólmar og hlær. Aðeins 22 kylfingar hafa farið oftar en þrisvar sinnum holu í höggi.
Hólmar fór núna síðast holu í höggi á fjórðu holu á Húsatóftavelli í Grindavík. „Það var hliðarvindur og ég tek upp „dræverinn“ eins og vanalega á þessari holu. Ég hugsaði með mér að ég ætlaði að ná eins nálægt flötinni eins og ég gæti með því að með því að slá hann í „slæsi“. Ég gerði það og hann fer eftir brautinni og tekur eitt skopp fyrir neðan flöt og svo rúllar hann ofan í.“ Þarna var Hólmar að spila með ókunnugum manni sem hafði aldrei séð neitt þessu líkt. „Við gengum upp að holunni og hann missti eiginlega andlitið. Það var ekki svo með mig, enda vanur maður,“ bætir Hólmar við og hlær. Völlurinn í Grindavík er frábær um þessar mundir að sögn Hólmars sem reyndar spilar mest á Kálfatjarnarvelli í Vogum.
Hólmar varð fyrir taugameiðslum þegar hann skarst á hendi í vinnuslysi fyrir þremur árum. „Ég er nú bara heppinn að geta spilað golf að einhverju ráði eftir það,“ segir Hólmar sem nær ekki að spila mikið þegar hitastigið fer að lækka en það hefur áhrif á taugarnar. Hann hefur þó náð öllum þremur draumahöggunum eftir að hann meiddist þannig að það virðist ekki mikið há honum. Hólmar segist eiga nóg inni og býst við því að verða bara betri spilari með árunum. Hann stefnir ótrauður að því að fikra sig enn hærra upp einherjalistann.
„Það er ekkert annað í boði en að ná því. Maður er kominn með þrennuna. Eina sem ég á eftir í golfinu er að fara holu í höggi á par þrjú holu. Ég er búinn að gera allt annað.“ Hólmar hefur afrekað það að fá albatross á par fimm holu, sem þýðir að maður fer á tveimur höggum, eða þremur undir pari. Það afrekaði hann á gömlu annarri brautinni í Grindavík, sem nú er 13. braut. Það má segja að sé eiginlega meira afrek en að fara holu í höggi!