Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

FH sigrar Keflavík og heldur toppsætinu
Sunnudagur 25. júlí 2004 kl. 21:44

FH sigrar Keflavík og heldur toppsætinu

FH sigraði Keflavík í Landsbankadeild karla í kvöld, 0-1. Þeir halda því toppsætinu, en heimamenn í Keflavík eru fallnir niður í það sjötta.

Allan Borgvardt, Daninn knái í liði Hafnfirðinga, skoraði eina mark leiksins úr aukaspyrnu af 25m færi á 3. mínútu leiksin.

Eins og gefur að skilja voru liðin vart komin í gang þegar rothöggið kom.

FH fengu aukaspyrnu út frá hægra vítateigshorni og tók Borgvardt fasta spyrnu. Ólafur Gottskálksson í marki Keflavíkinga hafði hönd á boltanum en hann fór í stöngina og þaðan í netið, 0-1.

Eftir markið riðlaðist leikur Keflavíkur. Þeir söknuðu greinilega Stefáns Gíslasonar sem var í leikbanni og var spil þeirra, sérstaklega milli varnar og miðju, ekki svipur hjá sjón. Þeir voru engu að síður sterkari aðilinn í leiknum lengst af í fyrri hálfleik.

Hólmar Örn Rúnarsson lét vita af sér á 16. mín þegar hann óð upp hægri kantinn. Hann tók fast skot úr þröngu færi en Daði Lárusson í marki FH sá við honum og varði í horn.

FH fóru mjög illa að ráði sínu þegar Borgvardt og Jónas Grani Garðarsson misnotuðu sitt dauðafærið hvor eftir rúmlega hálftíma leik.

Keflvíkingum gekk bölvanlega að koma sér í færi og náðu ekki að ógna að ráði fram að leikhléi.

Í upphafi seinni hálfleiks voru það gestirnir sem áttu færin. Jónas Grani, Emil Hallvarðsson, Atli Viðar Björnsson og Borgvardt fengu allir færi til að bæta við forskotið.

Heimamenn voru alls ekki á skotskónum og náðu ekki að ógna FH verulega. Hafnfirðingar pressuðu vel og lokuðu á spil Keflvíkinga.

Ólafur Gottskálksson gerði mjög vel undir lok leiksins þegar hann óð á móti Borgvardt sem var kominn einn inn fyrir og hirti boltann áður en Daninn náði skoti.

Fimm mínútum var bætt við 90 mínúturnar, en Keflvíkingar náðu ekki að gera sér mat úr því og sigur FH var staðreynd.

„Markið í byrjun ruglaði öllu sem við höfðum lagt upp með fyrir leikinn“, sagði Milan Jankovic, þjálfari Keflavíkur í leikslok. „Það er ekki tilviljun að þeir eru efstir. Þeir eru með mjög gott lið og stoppuðu spilið hjá okkur. Baráttan hjá okkur var þó til staðar og það er gott.“
„Við fengum draumabyrjun, en eftir það lentum við í vandræðum,“ sagði Heimir Guðjónsson fyrirliði FH. „Þeir voru að spila mjög vel en í lokin náðum við tökum á leiknum. Mér fannst þeir ekki eiga neitt alvarlegt færi, en það er alltaf erfitt að spila í Keflavík. Þeir eru að reyna að spila góðan fótbolta og það er virðingarvert.“

VF-myndir/Héðinn Eiríksson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024