FH meistari meistaranna
Íslandsmeistarar FH urðu í gærkvöldi meistarar meistaranna í knattspyrnu eftir 1-0 sigur á Keflavík. Fyrir hverja leiktíð í knattspyrnunni eru það Íslands- og Bikarmeistarar síðustu leiktíðar sem mætast í þessum leik. FH var Íslandsmeistari í fyrra og Keflavík Bikarmeistari.
Bjarki Bergmann Gunnlaugsson gerði eina mark leiksins sem fram fór á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði. Markið kom á 18. mínútu leiksins. Guðmundur Steinarsson, leikmaður Keflavíkur, yfirgaf leikvöllinn í gær á 38. mínútu en hann tognaði aftan í læri fyrir nokkru og ákvað að taka ekki neina áhættu í gær heldur fór rakleiðis útaf um leið og hann fann aðeins fyrir meiðslunum. Guðmundur segir meiðslin minniháttar og telur að þau muni ekki hindra hann í því að taka þátt í fyrstu leikjum Landsbankadeildarinnar.
Í kvöld mætast í æfingaleik Grindavík og Valur kl. 19:00 og fer leikurinn fram á Grindavíkurvelli.
VF-mynd/ Úr safni