FH í öðrum gæðaflokki
Grindvíkingar eru á jaðri fallsvæðisins eftir tap gegn frískum FH-ingum í kvöld, 4-1.
Grindvíkingar náðu sér ekki á strik og lentu undir eftir 10 mín. leik þegar Atli Viðar Björnsson skoraði auðvelt mark eftir að Albert Sævarsson, markmaður Grindvíkinga, missti af boltanum í úthlaupi.
Eitthvað virtist rofa til þegar Sinisa Kekic jafnaði leikinn með þrumufleyg utan úr teig eftir sendingu Grétars Hjartarsonar á 21. mín en það reyndist skammgóðum vermir þar sem Atli Viðar bætti öðru marki við 11 mínútum seinna.
„Keli jafnaði, en svo féll allt hjá okkur!“, sagði Grétar í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn.
FH-ingar létu ekki staðar numið þar heldur gerðu þeir endanlega út um leikinn með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla í seinni hálfleik, Emil Hallfreðsson á 76. mín og Baldur Bett á þeirri 79.
„Það var eins og við værum allir með steina í skónum í kvöld“, bætti Grétar við að lokum. „Þetta var sennilega versti leikur okkar í sumar og FH voru miklu betri.“
VF-mynd/Hallgrímur Indriðason