FH fór létt með bitlausa Grindvíkinga
Grindavík mátti sætta sig við 3-0 tap gegn FH í Landsbankadeild karla en leikurinn fór fram á Grindavíkurvelli í kvöld. Hlutskipti liðanna fyrir leikinn var nokkuð ólíkt en FH var í toppbaráttunni meðan Grindavík sat í fallsæti. Það breyttist ekkert eftir leikinn en með sigrinum skaust FH á toppinn og eru eina liðið sem ekki hefur beðið ósigur í deildinni. Á meðan sitja Grindvíkingar í 11. sæti með þrjú stig og eru einu stigi á eftir ÍA sem er í 10. sæti.
Það var snemma ljóst í leiknum hvort liðið væri betra þó að bæði liðin færu varfærnislega af stað á fyrstu mínútunum. Strax í upphafi leiks fékk Atli Viðar Björnsson tvö góð færi með stuttu millibili. Fyrst fékk hann opið marktækifæri af löngu færi en skotið var slakkt og Marinko Skarici bjargaði auðveldlega fyrir framan marklínuna. Í framhaldi af þessari sókn fékk Atli Viðar aftur gott færi en boltinn fór rétt framhjá markinu.
Á 20 mínútu brást Atla hins vegar ekki bogalistinn og skoraði fyrsta mark leiksins eftir slæm varnarmistök hjá Marinko. Löng sending kom upp völlinn að marki Grindvíkinga sem virtist auðveld viðureignar en Marinko hrasaði og Atli Viðar komst einn í gegn og lagði boltann snyrtilega framhjá Zancarlo Simunic í markinu.
Ekki gerðist mikið markvisst í leiknum fyrr en á 34. mínútu að Atli Viðar bætti við öðru marki FH og sínu öðru marki í leiknum. Atli Viðar fékk sendingu frá nafna sínum Atla Guðnasyni af hægri kantinu, Atli Viðar tók boltann á brjóstið og þrumaði boltanum í hægra hornið, óverjandi fyrir Zancarlo í marki Grindavíkur.
Grindvíkingar voru ekki að skapa sér nein færi og leikurinn algjörlega eign gestanna úr Hafnafirðinum. Grindvíkingar reyndu að spila boltanum sín á milli en náðu ekki að skapa sér nein færi fyrir framan mark FH. Matthías Vilhjálmsson fékk síðasta alvöru færið í fyrri hálfleik en hann átti skot úr teig Grindavíkur sem fór rétt framhjá og hefði með smá heppni getað komið gestunum í 0-3 en staðan í hálfleik var engu að síður 0-2 fyrir gestina úr Hafnafirðinum.
Ef að Milan Stefán Jankovic hefur lesið hressilega yfir sínum mönnum í hálfleik, þá hefur það ekki virkað því strax á þriðju mínútu síðari hálfleiks bættu FH-ingar við þriðja markinu. Tryggvi Guðmundsson tók aukaspyrnu að marki Grindavíkur sem Zancarlo varði yfir mark Grindavíkur. Úr hornspyrnunni skoraði svo Dennis Siim með góðu skoti eftir að boltinn hafði hrokkið til hans úr teignum. Við þriðja markið var leikurinn nánast búinn og FH-ingar færðu sig aftar á völlinn og beittu skyndisóknum.
Það var kannski lýsandi fyrir það hve rólegur leikurinn var eftir að FH bætti við þriðja markinu að það markverðasta í leiknum var skipting Emils Daða Símonarsonar inn á en hann fagnaði 20 ára afmæli sínu í dag. Andri Steinn Birgisson átti þó lokaorðið í leiknum á 90. mínútu þegar hann komst einn inn fyrir vörn FH-inga af hægri kantinum en skot hans úr þröngu fær fór í stöngina og framhjá. Fyrsta skot Grindvíkinga kom ekki á mark fyrr en í viðbótartíma sem er lýsandi fyrir hversu daufir Grindvíkingar voru í kvöld og allt annað lið sem mætti til leiks í kvöld en það lið sem kjöldró Breiðablik í síðustu viku.
Eini ljósi punkturinn hjá Grindvíkingum í kvöld eru líklega stuðningsmennirnir sem studdu vel að baki sínum mönnum. Liðið er vel spilandi en vantar að skapa sér færi fyrir framan mark andstæðinganna. FH lítur hins vegar afar vel út og er þetta fjórði leikurinn af fimm sem liðið heldur hreinu og ljóst er að þeir munu gera harða atlögu að Íslandsmeistaratitlinum ef þeir halda áfram að spila svona í sumar.
Byrjunarlið Grindavíkur í kvöld:
Zankarlo Simunic, markvörður, Michael Jónsson, Scott Ramsay, Marinko Skaricic, Andri Steinn Birgisson, Jóhann Helgason, Tomasz Stolpa, Eysteinn Húni Hauksson Kjerúlf, Orri Freyr Hjaltalín, Alexander Veigar Þórarinsson og Jósef Kristinn Jósefsson.
Byrjunarlið FH í kvöld:
Daði Lárusson, markmaður, Dennis Siim, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Davíð Þór Viðarsson, Tryggvi Guðmundson, Matthías Vilhjámsson, Atli Guðnason, Guðmundur Sævarsson, Atli Viðar Björnsson, Hjörtur Logi Valgarðsson.
VF-Myndir/ Þorgils Jónsson, [email protected]