Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

FH átti ekki í vandræðum í Grindavík
Mánudagur 19. september 2011 kl. 19:39

FH átti ekki í vandræðum í Grindavík

Grindvíkingar áttu ekki sinn besta leik í kvöld þegar þeir tóku á móti FH á Grindavíkurvelli í Pepsi-deild karla. FH hafði 1-3 sigur og Grindvíkingar virkuðu andlausir og auk þess hugmyndasnauðir þegar að kom að sóknarleiknum.

Fyrsta mark leiksins kom eftir rúmlega 20. mínútur þegar Atli Guðnason kom FH yfir með skoti af vítateigshorninu sem Óskar átti ekki möguleika á að verja. Staðan var 0-1 fyrir gestina í hálfleik og þeir virtust staðráðnir í því að klára leikinn hið snarasta því þeir skoruðu 2 mörk strax í upphafi síðari hálfleiks. Fyrst var það Pétur Viðarsson sem skoraði eftir að Grindvíkingum tókst ekki að koma boltanum frá markinu eftir hornspyrnu. Þriðja markið var svo keimlíkt öðru markinu, en þá náðu Grindvíkingar ekki að verjast hornspyrnu FH og á endanum skallaði Freyr Bjarnason boltann í slánna og inn af stuttu færi.

Grindvíkingar reyndu hvað þeir gátu að sækja og minnka muninn en FH-ingar voru fastir fyrir og enginn virstist vera tilbúinn að taka af skarið fyrir þá gulklæddu. Fjöldi fyrirgjafa frá kantmönnum Grindavíkur rötuðu undantekningarlaust á kollinn á FH-ingum eða í höndum markvarðar þeirra, enginn Grindvíkingur gerði árás á þessa bolta eða virtist líklegur til þess að skora.

Það var svo örlítil sárabót fyrir Grindvíkinga þegar að Magnús Björgvinsson klóraði í bakkann með skoti utan teigs sem, að því er virtist hafði örlitla viðkomu af varnarmanni FH og fór þaðan í bláhornið

Eftir leik kvöldsins eru Grindvíkingar enn í 10. sæti, 5 stigum fyrir ofan Framara sem leika gegn Keflvíkingum nú klukkan 19:15.

Mynd Eyþór Sæmunds: Magnús skoraði sjötta mark sitt í sumar í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024