Ferill Friðriks á enda kominn?
Landsliðsmiðherjinn Friðrik Erlendur Stefánsson mun að öllum líkindum ekki leika meira með Njarðvíkingum á þessari leiktíð og jafnvel gæti körfuknattleiksdögum hans verið lokið. Friðrik hefur ekki æft með Njarðvíkingum síðan liðið lék sinn síðasta deildarleik en hjartsláttartruflanir sem hann hefur glímt við síðustu mánuði og ár tóku sig upp að nýju. Friðrik varði þriðjudagsnóttinni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hafði þar áður verið á sjúkrahúsi í Reykjavík. Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga segir framhaldið óráðið.
,,Við sjáum bara hvað læknarnir og Friðrik sjálfur hafa um málið að segja, það er undir þessum aðilum komið hvað verður. Friðrik hefur ekki æft með okkur eftir Grindavíkurleikinn,“ sagði Teitur og átti ekki von á því að Friðrik yrði meira með grænum í vetur.
,,Það er aðalmálið að hann jafni sig og hvað varðar liðið þá taka bara aðrir leikmenn á sig meiri ábyrgð en þetta er að sjálfsögðu gríðarlegt áfall fyrir okkur,” sagði Teitur en Friðrik hefur síðustu ár verið á meðal fremstu körfuknattleiksmanna þjóðarinnar.
„Ég efast um að læknirinn hans gefi grænt ljós á að hann verði meira með í vetur,” sagði Teitur í samtali við Víkurfréttir.
Það er því óljóst hvað verður í framhaldinu hjá Friðriki og Njarðvíkingum sem munu sárlega sakna miðherja síns í komandi rimmum gegn Snæfellingum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild karla.