Fer sá stóri á loft í kvöld?
Keflavík getur klárað dæmið á heimavelli
Keflvíkingar geta í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta kvenna leggi þær Snæfell á heimavelli sínum. Staðan í einvígi liðanna er 2-1 Keflavík í vil og því dauðafæri að lyfta bikarnum í Sláturhúsinu í kvöld fyrir „litlu slátrarana.“
Það er skarð fyrir skildi að Birna Valgerður Benónýsdóttir verður í banni eftir að henni var vikið úr húsi í síðasta leik. Hin 16 ára gamla Birna hefur verið mikilvæg fyrir liðið í vetur en Keflvíkingar hafa breidd til þess að mæta fjarveru hennar. Snæfell eru meistarar síðustu þriggja ára og eru ríkjandi deildarmeistarar. Keflvíkingar eru hins vegar bikarmeistarar og því er möguleiki á stóru tvennunni í ár í Keflavík.
Leikurinn hefst klukkan 19:15 í TM-höllinni við Sunnubraut í Keflavík.