Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fer Guðjón til Keflavíkur?
Þriðjudagur 23. nóvember 2004 kl. 14:18

Fer Guðjón til Keflavíkur?

Framhaldssagan af Guðjóns málum Þórðarsonar heldur enn áfram og herma nýjustu fréttir að Grindvíkingar hafi gefið upp alla von um að fá Guðjón í sínar raðir. Því séu Keflvíkingar líklegastir til að tryggja sér starfskrafta þessa víðfræga knattspyrnuþjálfara.

Rúnar Arnarson, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, sagði í samtali við Víkurfréttir fyrir stundu að Guðjón væri efstur á þeirra óskalista. „Við erum bjartsýnir en getum í raun ekkert sagt fyrr en hann klárar sín mál í Englandi. Það styttist í að hann ákveði sig og við gerum ekkert fyrr en það gerist. Guðjón er númer eitt hjá okkur.“

Samkvæmt fregnum í öðrum miðlum hafa Grindvíkingar boðið Milan Jankovic starfið, en hann sagði það ekki rétt. „Ég hef ekki fengið formlegt tilboð um að taka við meistaraflokki Grindavíkur. Ég kom hingað til að einbeita mér að því að þjálfa annan flokk og vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks og var ekki að hugsa um annað. Þessi mál skýrast væntanlega á næstunni,“ sagði Milan, en hann stýrir nú sameiginlegum æfingum meistaraflokks og annars flokks.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024