Fengum allt í einu alls kyns helgarfrí
Íþróttaárið 2013: Anna Pála Magnúsdóttir
Sjúkraþjálfarinn Anna Pála Magnúsdóttir hefur verið í hringiðu íþrótta um árabil. Sjálf lék hún körfubolta á árum áður og eiginmaður hennar, Guðmundur Steinarsson, hefur verið áberandi í knattspyrnunni á Íslandi síðan á síðustu öld. Anna Pála fór yfir íþróttaárið 2013 á Suðurnesjum.
Hvað stóð upp úr á íþróttaárinu 2013 á Suðurnesjum?
Það sem mér finnst hafa staðið uppúr er áframhaldandi sigurganga kvennakörfunnar í Keflavík, þetta er eiginlega verðugt rannsóknarefni, það virðist ekkert lát á velgengninni á þeim bænum. Við eigum alveg hreint urmul af efnilegum og flottum stelpum í öllum yngri flokkum sem er alveg hreint unun að horfa á. Eins er eftirtektarverður árangur sunddeildar ÍRB og taekwandodeildar Keflavíkur á árinu, þar sem greinilega er verið að vinna flott starf. Það er líka aðdáunarvert að sjá hve flott starf er unnið hér í Keflavík, ég man í fljótu bragði ekki eftir öðru félagi á landinu sem er með svona margar deildir í fremstu röð og fyrir það má hrósa.
Hver voru vonbrigði ársins að þínu mati?
Það eru viss vonbrigði að karlaliðið í körfubolta hér í Keflavík hafi ekki náð lengra í úrslitakeppninni. Eins fannst mér leiðinlegt að Grindavík hafi ekki náð að koma sér í úrvalsdeildina í fótboltanum, bæði karla og kvenna.
Hvaða íþróttamaður/kona skaraði framúr á árinu?
Það liggur beinast fyrir hjá mér að minnast á Bryndísi Guðmundsdóttur leikmann Keflavíkur í körfubolta, hún hefur verið hreint mögnuð á þessu ári. Endaði síðasta tímabil gríðarlega vel og núna þetta tímabil hefur hún verið alveg frábær, gaman að sjá hana vaxa og blómstra með þessum ungu stelpum. Taekwandokrakkarnir okkar hún Ástrós og Bjarni Júlíus gerðu einnig frábæra hluti á árinu og voru valin Taekwandokona/maður ársins, það er vert að fylgjast með þeim í framtíðinni. Arnór Ingvi var líka mjög góður í fótboltanum og er nú kominn í atvinnumennskuna, gaman verður að fylgjast með honum líka.
Einhverjar íþróttagreinar sem komu sterkar inn á þessu ári?
Engin sérstök íþróttagrein, hef bara ótrúlega gaman að fylgjast með íþróttalífinu hérna á svæðinu og sjá allt þetta flotta íþróttafólk okkar ná árangri. Kannski persónulega þá kom 2. deildin í fótboltanum mjög sterk inn hjá okkur fjölskyldunni, við fengum allt í einu alls kyns helgarfrí sem hafa ekki tíðkast síðustu 18 árin eða svo. Eldri sonurinn var himinlifandi með þessa ákvörðun heimilisföðurins og komst allt í einu í ferðalög á sumrin sem hann hafði ekki upplifað áður.
Hvernig sérðu íþróttafólk af Suðurnesjum standa sig á næsta ári?
Ég sé ekkert nema bjart framundan í þessum efnum, hér er unnið gríðarlega flott starf í íþróttum og aðstaðan til fyrirmyndar svo það er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram og gera enn betur á næsta ári.