Fastar í þriðja sæti?
Grindavíkurkonur hafa verið skrefinu á eftir toppliðum Hauka og Keflavíkur í vetur. Grindavík er nú í 3. sæti í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik en það sæti hefur verið þeirra nánast frá upphafi mótsins. Þær hafa tapað naumlega gegn toppliðunum en ekki átt í teljandi vandræðum með liðin fyrir neðan sig. Verður það þeirra hlutskipti að fara inn í úrslitakeppnina í þriðja sæti?
Í gær tóku Grindavíkurkonur á móti nýliðum Hamars í deildinni og höfðu þar stórsigur 96-50. Vafalaust hefur Grindavík á að skipa besta erlenda leikmanni deildarinnar, Tamara Bowie. Í gær gerði hún 40 stig, tók 7 fráköst og stal 7 boltum. Hún hefur gert 33,1 stig að meðaltali í leik í vetur. Fleira þarf að koma til og í gær lék Tanja Goranovic sinn fyrsta leik með Grindavíkurkonum. Hávaxinn leikmaður sem mun skila miðherjastöðu hjá Grindavík.
Hamar gerði fjögur fyrstu stig leiksins í gær en þá sögðu heimakonur hingað og ekki lengra og gerðu 16 stig í röð. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 28-8 og ljóst í hvað stefndi í Röstinni. Í hálfleik var staðan orðin 58-21 og lokatölur voru 96-50 eins og áður greinir.
Næsti heimaleikur Grindavíkurkvenna verður gegn Keflavík og því um stórleik að ræða. Leikurinn fer fram 17. janúar í Röstinni þar sem Grindavíkurkonur eiga möguleika á því að saxa á toppliðin með sigri. Tapi þær leiknum verður þeirra eina markmið í deildinni að berjast fyrir 3. sætinu sem hingað til hefur ekki verið erfitt hjá þeim gulu.
Sjá myndir frá leik Grindavíkur og Hamars í ljósmyndasafninu hér til hliðar.