Farið að líta virkilega illa út hjá Keflvíkingum
Það má segja að ekkert sé að ganga upp hjá Keflavík í Bestu deild karla í knattspyrnu þessa dagana. Keflvíkingar tóku á móti KA í kvöld og þrátt fyrir að hafa skorað þrjú mörk töpuðu þeir leiknum. Keflavík situr á botni deildarinnar eftir sextán leiki og hafa ekki unnið leik síðan í fyrstu umferð.
Leikurinn byrjaði fjörlega, Keflvíkingar sóttu á fyrstu mínútunum og Ernir Bjarnason átti gott skot á 3. mínútu en boltinn fór naumlega framhjá markinu. Aðeins tveimur mínútum síðar sóttu gestirnir og sóknarmaður þeirra átti skot í stöng.
Það dró til tíðinda á 14. mínútu þegar Sami Kamel sendi boltann fyrir markið úr aukaspyrnu, þar sem Sindri Þór Guðmundsson afgreiddi boltann í markið.
Keflvíkingar efldust við markið og voru líklegir til að bæta við, Viktor Andri Hafþórsson var nærri því að tvöfalda forystuna eftir ríflega tuttugu mínútna leik þegar Kamel fór hratt upp völlinn, sendi inn fyrir vörnina á Viktor en hann hitti boltann illa úr ákjósanlegu færi og markvörður KA varði.
Keflavík var að leika virkilega vel á þessum tímapunkti. Sami Kamel skapaði hættu í nánast hvert skipti sem hann hafði boltann og Axel Ingi Jóhannesson virtist óþreytandi þar sem hann geystist fram og aftur hægri kantinn. Í heildina voru Keflvíkingar að spila vel frá aftasta manni til þess fremsta.
Eftir að hafa verið með undirtökin í fyrri hálfleik breyttust hlutirnir hratt. KA fékk hornspyrnu á 43. mínútu, Matthias Rosenorn missti af fyrirgjöfinnin og eftir darraðadans í markteignum skoruðu KA-menn og jöfnuðu leikinn.
Innan við tveimur mínútum síðar fékk KA aðra hornspyrnu. Aftur missti Rosenorn af fyrirgjöfinni og nú skallaði KA í netið nánast af marklínu (45'). Ótrúlegur viðsnúningur og KA búið að ná forystu rétt áður en blásið var til hálfleiks.
KA-menn fengu dauðafæri snemma í seinni hálfleik en Rosenorn hélt Keflvíkingum inni í leiknum með góðri markvörslu. Heimamenn voru ekki tilbúnir að leggja árar í bát og á 59. mínútu sendi Frans Elvarsson góða sendingu fyrir mark KA þar sem Dagur Ingi Valsson fór í skallaeinvígi en boltinn barst á fjærstöng þar sem Viktor Andri var réttur maður á réttum stað og setti boltann í netið.
Rétt eftir að hafa jafnað sóttu Keflvíkingar og gestirnir brutu á Sami Kamel á hættulegum stað, rétt utan teigs. Kamel tók aukaspyrnuna sjálfur en hún fór í varnarvegginn.
Í nánast beinu framhaldi af sókn Keflavíkur hélt KA upp völlinn, sending inn fyrir og mark. Of einfalt að mínu mati og gestirnir komnir aftur með forystuna.
Á 72. mínútu lék Ásgeir Páll Magnússon með boltann í átt að teig KA-manna, enginn gerði sig líklegan til að stöðva hann og Ásgeir lét vaða á markið. Skotið í bláhornið og staðan orðin 3:3.
En Adam var ekki lengi í Paradís, Keflvíkingar gerðu tvöfalda skiptingu og þegar KA gat loks hafið leik að nýju sóttu þeir upp hægra megin, fyrirgöf og mark (74'). Ótrúlegar vendingar í þessum leik.
Keflvíkingar reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna, Sami Kamel átti skot í slá og Dagur Ingi náði góðu skoti í kjölfarið en marvörður KA varði glæsilega.
Undir lokin fór allt í háaloft þegar Keflvíkingar vildu fá víti dæmt á KA en Jóhann Ingi Jónsson, dómari leiksins, var ekki sammála. Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflvíkinga, missti gersamlega stjórn á sér og lét Jóhann Inga fá það óþvegið sem kunni því illa og sýndi Sigurði rauða spjaldið (89'). Kannski skiljanleg gremja hjá Sigurði því þetta er ekki fyrsta vítaspyrnan sem Jóhann Ingi sleppir á Keflavíkurvelli.
Hvað sem því líður geta Keflvíkingar nagað sig í handarbökin yfir frammistöðunni í kvöld, sem var góð á löngum köflum en eitthvað einbeitingarleysi og athyglisbrestur kostaði þá fjögur mörk, tvö úr föstum leikatriðum og tvö sem virtust koma upp úr engu – en jafngott lið og KA refsar fyrir minnstu mistök.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á leiknum og tók meðfylgjandi myndir (fleiri myndir bætast í eftir því sem líður á kvöldið).