Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Farið að kitla í fingurna
Föstudagur 16. febrúar 2007 kl. 09:19

Farið að kitla í fingurna

Íslandsmeistarar Hauka og Keflavík mætast í úrslitaleik Lýsingarbikarkeppninnar í kvennakörfuknattleik á laugardag. Leikurinn hefst kl. 14:00 í Laugardalshöll og má gera ráð fyrir jöfnum og spennandi leik eins og rimmur þessara liða hafa verið síðustu misseri.

 

Leikin er fjórföld umferð í Iceland Express deild kvenna og hafa Keflavík og Haukar mæst þrívegis í vetur. Haukar unnu fyrsta leik liðanna 90-81 að Ásvöllum en Keflavíkurstúlkur jöfnuðu metin með 92-85 sigri í Sláturhúsinu. Haukar tóku 2-1 forystu í rimmum liðanna með sigri að Ásvöllum 95-84 þann 4. febrúar síðastliðinn.

 

Óhætt er að segja að Keflavík sé mun meira bikarlið en Haukar því alls hafa Keflavíkurkonur hampað bikarmeistaratitlinum 11 sinnum en Haukar hafa þrívegis orðið bikarmeistarar. Keflavíkurkonur urðu síðast bikarmeistarar leiktíðina 2003-2004 en Haukar unnu bikarinn árið eftir. Ríkjandi bikarmeistarar ÍS duttu út úr bikarnum í 8-liða úrslitum gegn Haukum og svo slóu Haukar út Grindavík. Keflavíkurkonur fóru nokkuð auðveldari leið, lögðu fyrst Blika og svo Hamar í undanúrslitum. Fyrirliði Keflavíkurliðsins, Birna Valgarðsdóttir, hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu en hún stefnir samt ótrauð að því að vera með á laugardag. Birna reif liðþófa í hné í

upphafi leiktíðar og svo tóku meiðslin sig upp fyrir skemmstu og hefur Birna ekki leikið í síðustu leikjum með Keflavík.

 

„Ég vona að allt verði í góðu hjá mér en ég hef verið að jafna mig eftir aðgerð sem ég fór í þann 19. janúar,“ sagði Birna. „Vörnin þarf að smella saman hjá okkur á laugardag og þá kemur sóknin með því. Við þurfum einnig að vera yfirvegaðar í okkar leik,“ sagði Birna en Keflavíkurkonum hefur ekki gengið sem best á móti pressuvörn Hauka og í síðasta leik liðanna töpuðu Keflavíkurkonur alls 27 boltum í leiknum. „Við munum fara vel yfir okkar mál og sjá hvað við þurfum að gera og vonandi smellur þetta allt saman þegar í leikinn kemur. Ég er farin að þrá að lyfta upp einhverjum bikar því það er langt síðan við unnum eitthvað og mig farið að kitla í fingurna,“ sagði Birna.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024