Fannar Ólafsson fingurbrotinn, frá keppni í 4-6 vikur!
Meiðslin sem Fannar Ólafsson, miðherji landsliðsins og Keflavíkur í körfuknattleik, varð fyrir á lokasekúndum leiksins gegn ÍR í gærkvöldi reyndust alvarlegri en í fyrstu var talið. Hann reyndist vera fingurbrotinn á þumalfingri hægri handar og þýðir það, samkvæmt heimasíðu Keflavíkur, að hann gæti verið frá í 4-6 vikur.
Þetta atvik er áfall fyrir Keflavíkurliðið, þar sem glöggt mátti sjá í leiknum hversu öflugur leikmaður Fannar er. Vegna meiðslanna mun hann hvorki vera með liðinu í Evrópuleikjunum sem eru framundan gegn Dijon frá Frakklandi, né bikarleiknum gegn Grindavík um helgina.