Falur leggur skóna á hilluna
Falur Harðarson, sem hefur um árabil verið einn af burðarásum Keflavíkuliðsins í körfuknattleik, hefur ákveðið að leika ekki framar með liðinu.
Þetta tilkynnti Falur á uppskeruhátið Keflavíkur sem fór fram í kvöld, en búist er við því að hann og Guðjón Skúlason stýri liðinu áfram á næstu leiktíð. Þeir félagar hafa náð góðum árangri með liðið á sínu fyrsta ári í þjálfun í vetur, en Falur hefur ekki getað leikið með liðinu síðan í desember vegna meiðsla. Hann þakkaði við þetta tækifæri öllum sem höfðu stutt hann í þessi 20 ár sem hann var í eldlínunni.
Falur lék á sínum ferli 278 leiki í efstu deild og skoraði 3469 stig. Hann lék einnig á annað hundrað landsleikja fyrir Íslands hönd og hefur unnið fimm Íslandsmeistaratitla með Keflavík.