Fallnir Blikar yfirbugaðir í Ljónagryfjunni
Njarðvík vann yfirburðarsigur í gær á Breiðabliki í síðast leik tuttugustu umferðar Subway-deildar karla í körfuknattleik. Með sigrinum er Njarðvík í öðru sæti deildarinnar.
Njarðvík - Breiðablik 120:86
Leikurinn var jafn í fyrstu og bæði lið skoruðu vel í fyrsta leikhluta en þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta slitu Njarðvíkingar sig frá Blikum með því að skora tíu stig gegn engu Blika, breyttu stöðunni úr 32:32 í 42:32.
Þarna skildu leiðir og munurinn 25 stig í hálfleik (73:48).
Bugaðir Blikar áttu ekki roð í Njarðvíkinga sem léku á alls oddi og héldu áfram að auka muninn sem var orðinn 37 stig eftir þriðja leikhuta (100:63) og leikurinn endaði með 34 stiga sigri heimamanna (120:86).
Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur Njarðvíkinga með 27 stig, Chaz Williams 24 stig, Þorvaldur Orri Árnason 20 stig, Snjólfur Stefánsson 12 stig, Maciej Baginski 11 stig, Elías Pálsson 10 stig, Domynikas Milka og Veigar Páll Alexandersson sjö stig hvor og að lokum Kristófer Hearn með tvö stig.
Eftir tuttugu umferðir eru Njarðvíkingar með fimmtán sigra í öðru sæti deildarinnar, einum sigri á eftir Valsmönnum sem verma toppinn. Grindavík og Keflavík eru í þriðja og fjórða sæti með fjórtán sigra.