Falla Víðismenn?
Víðir tapaði fjórða leiknum í röð í 2. deild karla þegar liðið tók á móti Völsungi í sannkölluðum sex stiga leik. Leiknum lauk með 2:0 sigri Völsungs og þá hafa Víðismenn misst þá fimm stigum fram úr sér í fallslagnum, Víðir á þó leik til góða.
Völsungur komst yfir á 15. mínútu og tvöfaldaði forystuna á þeirri 28.
Víðismenn börðust hvað þeir gátu en réðu ekki við gestaliðið sem fagnaði mikilvægum sigri á Nesfisk-vellinum.
Með tapinu sitja Víðismenn í fallsæti ásam Dalvík/Reyni sem er á botninum. Víðismenn eiga leik til góða gegn Kára en í lokaumferðunum mæta þeir Selfossi og Þrótti Vogum, liðum sem eiga í harðri baráttu um sæti í Lengjudeildinni.
Svo er aldrei að vita hvað gerist nú þegar búið er að tilkynna að hertar sóttvarnaraðgerðir verði kynntar á morgun. Verður deildarkeppninni aflýst og staðan eins og hún er núna látin ákvarða úrslitin? Ef það gerist er Víðir fallið.
Jóhann Páll Kristbjörnsson tók meðfylgjandi myndir úr leik Víðis og Völsungs á Nesfisk-vellinum í dag.