Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Fáliðaðir ÍR-ingar númeri of stórir fyrir Keflavík
Mánudagur 12. febrúar 2007 kl. 21:49

Fáliðaðir ÍR-ingar númeri of stórir fyrir Keflavík

ÍR komst í kvöld upp í 7. sæti Iceland Express deildar karla með 97-81 sigri á kanalausum Keflvíkingum. ÍR léku án Hreggviðs Magnússonar, Steinars Arasonar og Ólafs Sigurðssonar en það virtist ekki setja strik í reikninginn hjá þeim og fóru þeir með góðan sigur af hólmi. Keflvíkingar eru sem fyrr í 5. sæti deildarinnar með 20 stig og berjast hart þessa dagana um heimavallarréttindi í úrslitakeppninni.

 

Fannar Helgason kom ÍR í 2-0 en Jón N. Hafsteinsson jafnaði metin um hæl fyrir Keflavík. Gestirnir pressuðu duglega á ÍR og uppskáru boltann annað veifið en ÍR gekk þokkalega að leysa pressuna. Liðin skiptust á því að skora en Keflavík var skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og leiddi að honum loknum 22-26.

 

Í fjarveru margra lykilmanna hjá ÍR var það Keith Vassell sem steig vel upp hjá ÍR og skilaði sínu vel í kvöld. Í stöðunni 39-37 fyrir ÍR tók leikurinn nokkra stefnubreytingu þegar ÍR fór að síga fram úr. Sveinbjörn Claessen kom ÍR í 42-39 með þriggja stiga körfu og ÍR gerði næstu fimm stig án þess að Keflavík næði að svara og því áttu ÍR-ingar síðustu átta stig fyrri hálfleiks og liðin gengu til búningsklefa í stöðunni 47-37 ÍR í vil.

 

Fannar Helgason átti fínan fyrri hálfleik hjá ÍR sem og Keith Vassell en Arnar Freyr Jónsson átti góðar rispur inn á milli hjá Keflavík.

 

ÍR hóf síðari hálfleik af krafti og virtust ætla að stinga af í stöðunni 54-40 og síðar 63-44. Á þessum kafla gekk allt upp hjá ÍR. Jón N. Hafsteinsson fékk dæmdan á sig ruðning og var ósáttur og lét það í ljós, fyrir vikið fékk hann tæknivíti og þá virtist sem ÍR-ingar væru búnir að vinna leikinn. Svo reyndis ekki og Keflavíkurseiglan náði að minnka muninn niður í fjögur stig, 68-64. Eiríkur Önundarson gerði svo flautukörfu fyrir ÍR í lok þriðja leikhluta og breytti stöðunni í 71-64 fyrir lokaleikhlutann sem reyndist hollt og gott veganesti fyrir ÍR.

 

Heimamenn gerðu sex fyrstu stig fjórða leikhluta og staðan 77-64 og Nate Brown á bekknum hjá ÍR með fjórar villur en hann kom ekki aftur inn á fyrr en um sex mínútur voru til leiksloka. ÍR hélt lengstum af um 10 stiga mun í leikhlutanum og Keflvíkingar voru ávallt á hælunum á þeim. Ekki skildi verulega á milli liðanna fyrr en síga fór á þriðja leikhluta og ÍR kláraði með góðum heimasigri 97-81.

 

Keith Vassell sýndi á sér gamlar og góðar hliðar í kvöld en hann var stigahæstur ÍR-inga með 21 stig og 14 fráköst. Magnús Gunnarsson var stigahæstur hjá Keflavík sömuleiðis með 21 stig og 3 stoðsendingar.

 

Sigur ÍR í kvöld var þeim gríðarlega mikilvægur, sér í lagi þegar litið er á hverslags kanónur vantaði í raðir þeirra í kvöld. Keflvíkingar léku án Bandaríkjamanns og þýðir ósigurinn í kvöld að þeir eru áfram í 5. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Snæfellingum.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024