Fær Elvar afmælisgjöf frá ÍR-ingum?
Mikið hefur verið rætt um dagsetningu dagsins í dag, 11. 11. árið 2011 og hafa afmælisbörn dagsins fengið mikla athygli í ýmsum fjölmiðlum, sérstaklega ef þau eru 11 ára. Eitt af afmælisbörnum dagsins er bakvörðurinn ungi hjá Njarðvíkingum, Elvar Már Friðriksson sem er þó rétt rúmlega 11 ára.
Elvar varð í dag löglegur í umferðinni, eða 17 ára gamall og byrjaði hann daginn á því að sækja Ólaf Helga liðsfélaga sinn klukkan rúmlega 6 í morgun og héldu þeir félagar upp í íþróttahús í Njarðvík. Þar var tekin létt skotæfing en Njarðvíkingar etja kappi við ÍR-inga í Breiðholtinu í kvöld. Víkurfréttir óska Elvari og afmælisbörnum dagsins til hamingju með daginn og svo er bara spurning hvort að Njarðvíkingar geri daginn ekki eftirminnilegan fyrir Elvar með sigri á ÍR í kvöld en leikir kvöldsins hefjast klukkan 19:15.
Leikir dagsins í Iceland Express-deild karla:
ÍR-Njarðvík
Grindavík-Haukar
Stjarnan-Snæfell