Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eyþór nældi í gull í Hollandi
Mánudagur 13. mars 2017 kl. 11:11

Eyþór nældi í gull í Hollandi

Keflvíkingurinn Eyþór Jónsson gerði sér lítið fyrir og nældi í gullverðlaun í sínum flokki á Dutch open mótinu í taekwondo um helgina. Eyþór sýndi góða leikfræði og stýrði bardaganum vel alveg frá byrjun. Andstæðingur hans frá Póllandi gat hvergi komið vörnum við og Eyþór sigraði bardagann 16-4. Eyþór hefur m.a. keppt á Evrópumóti ungmenna og stefnir á HM ungmenna sem verður í Egyptalandi á árinu.

Keflvíkingarnir Ágúst Kristinn Eðvarðsson, Kristmundur Gíslason, Eyþór Jónsson og Helgi Rafn Guðmundsson fóru til Hollands um helgina til að taka þátt á Dutch Open sem er eitt sterkasta mót Evrópu. Mótið er fyrir löngu komið til að vera en þetta er í 44. skiptið sem mótið er haldið í Eindhoven í Hollandi. Að þessu sinni voru rúmlega 1.200 keppendur frá öllum heimshornum og í þremur aldursflokkum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristmundur Gíslason barðist við feykisterkan Spánverja sem er í 28. sæti heimslistans. Bardaginn var fram og tilbaka og skiptust þeir á að sækja og komast yfir en fór svo að Spánverjinn hafði betur og sigraði 19-11. Góð reynsla í bankann fyrir Kristmund sem er að vinna sig upp heimslistann, en hann stefnir á HM í Suður-Kóreu í sumar.

Ágúst Kristinn Eðvarðsson keppti í unglingaflokki en hann er með sterkari keppendum Evrópu í unglingaflokkunum. Þar mætti hann hollenskum keppanda og stjórnaði bardaganum vel. Hann var vel yfir í lok 2. lotu en hlutirnir geta breyst hratt í taekwondo keppni og fór svo að Hollendingurinn komst yfir þegar það voru 2 sekúndur eftir og sigraði bardagann. Gífurlega svekkandi fyrir þennan unga og efnilega keppanda sem stefnir hátt, en hann stefnir á Evrópumót unglinga í Kýpur á árinu.

Það er því mikið um að vera í keppnum um allan heim á næstu mánuðum hjá iðkendum taekwondo deild Keflavíkur. Næst á dagskrá hjá þeim er þó Íslandsmótið sem verður í Sunnubraut 25. mars n.k.