Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eysteinn Hauksson: „Berjumst meðan við höfum möguleika“
Mánudagur 12. september 2005 kl. 15:10

Eysteinn Hauksson: „Berjumst meðan við höfum möguleika“

Grindvíkingar róa nú lífróður til að halda sæti sínu í Landsbankadeild karla í knattspyrnu. Enn syrti í álinn þegar þeir töpuðu illa gegn Þrótti á Laugardalsvelli í gær, 3-2.

Leikurinn fór rólega af stað þar sem hvorugu liðinu tókst að skora í fyrri hálfleik, Þróttarar áttu þó eitt skot í stöng.

Seinni hálfleikur var mun fjörugri og spennan rafmögnuð undir lokin. Þrátt fyrir að Þróttarar væru þegar fallnir vvar það ekki að sjá á leik þeirra. Þeir skoruðu fyrsta mark leiksins á 55. Mínútu þegar skot Halldórs Hilmissonar af 25m færi söng í neti Grindvíkinga. Markið var frekar klúðurslegt þar sem Halldór vann knöttinn á hættulegum stað rétt eftir að Boban Savic í marki Grindvíkinga hafði kastað honum frá markinu.

Á 76. mínútu jafnaði skoski harðjaxlinn Paul McShane metin með þrumuskoti. Hann kom askvaðandi inn í teiginn og fékk sendingu frá Guðmundi Andra Bjarnasyni og smellti boltanum í netið þar sem hinn ágæti Fjalar Þorgeirsson fékk ekki rönd við reist.

Eftir markið var mikil spenna á vellinum sem magnaðist enn frekar þegar Páll Einarsson, fyrirliði Þróttar, kom sínum mönnum yfir með einu umdeildasta marki sumarsins. Hann fékk háan bolta inn í teiginn og lagði boltann hreinlega fyrir sig með vinstri hendi og skaut svo yfir Savic í markinu. Er með ólíkindum að enginn af dómaratríóinu hafi séð hvernig í pottinn var búið.

Eftir það var á brattann að sækja fyrir gestina sem vilja halda þeim heiðri að vera eina liði sem aldrei hefur fallið úr efstu deild á Íslandi. Þegar komið var yfir venjulegan leiktíma jöfnuðu Grindvíkingar, en Robert Nistroj skoraði með skalla utan úr teig eftir stutta fyrirgjöf Óskars Arnar Haukssonar.

Ef þetta mark gaf Grindvíkingum von slokknaði hún jafnharðan því Þróttarar skoruðu sigurmarkið á lokaandartökum leiksins og var þar á ferð Ingvi sveinsson sem skoraði úr teig eftir mikinn vandræðagang í vörn gestanna.

Þess vegna þurfa Grindvíkingar að treysta á heimasigur í nágrannaslag um næstu helgi þegar Keflvíkingar sækja þá heim. Þá verða þeir að treysta á að Fram og ÍBV tapi leikjum sínum líka.

„Við ætluðum að fá þrjú stig út úr þessum leik og hefðum jafnvel sætt okkur við eitt, en þetta tap var grátlegt,“ sagði Eysteinn Hauksson, miðjumaður Grindvíkinga í samtali við Víkurfréttir. Hann, eins og fleiri sem til sáu, furðaði sig á því að annað mark Þróttara væri dæmt gilt. „Maður skilur ekki hvernig þetta fór framhjá þeim. En þetta er bara eins og sumerið hefur verið. Ekkert hefur gengið upp og í rauninni er með ólíkindum að við skulum enn vera í baráttunni um að halda sætinu.“

Eysteinn er ekki alls ókunnugur Keflvíkingum því hann lék með liðinu um árabil og veit á hverju er von í leiknum um næstu helgi. „Það er enginn smáleikur og við verðum að undirbúa okkur af kostgæfni. Keflvíkingar eru að berjast fyrir Evrópusæti og gera sér fulla grein fyrir mikilvægi hans. Það þarf ýmislegt að ganga upp hjá okkur til að við sigrum en á meðan við höfum möguleika munum við berjast út í rauðan dauðann.“

VF-myndir/Þorgils: Úr fyrri leik liðanna í sumar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024