Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eyddi nýársnótt á sjúkrahúsi
Þriðjudagur 2. janúar 2007 kl. 19:49

Eyddi nýársnótt á sjúkrahúsi

Knattspyrnumaðurinn Haraldur Freyr Guðmundsson sem leikur með norska liðinu Aalesund varð að láta sér lynda að fagna nýja árinu á sjúkrahúsi. Haraldur fékk skotelda í vinstri lófann og þurfti að sauma hann 27 spor. Haraldur er nú haldinn aftur til Noregs þar sem hann bíður þess að sárin grói en hann gerir ráð fyrir því að vera ekki meira en viku frá æfingum sökum meiðslanna.

„Saumarnir verða teknir úr á mánudag í næstu viku og ég verð eitthvað aumur í þessu og þarf því að skýla sárinu vel,“ sagði Haraldur. Atvikið átti sér stað um það leyti sem nýja árið var að ganga í garð. Haraldur hugðist kveikja í þræði á skotköku með fyrrgreindum afleiðingum. „Tertan hefur verið eitthvað gölluð en hún sprakk um leið og ég kveikti í þræðinum. Fyrsti hólkurinn í skottertunni fór beint upp í vinstri lófann á mér. Bruninn var fremur lítill en það þurfti 27 spor í lófann,“ sagði Haraldur í samtali við Víkurfréttir.

Haraldur segist heppinn að hafa ekki fengið skothólkinn í andlitið. „Ég tel mig hafa sloppið vel, slagæðin og sinarnar sluppu alveg. Ef sárið grær vel þá á þetta ekki að vera neitt vesen hjá mér,“ sagði Haraldur sem hyggst mæta á æfingu á mánudag með Aalesund sem vann sér að nýju inn þátttökurétt í sumar í úrvalsdeildinni í Noregi.

Í fyrstu hélt Haraldur að hann hefði brunnið líttilega en þegar hann fór að huga betur að sárinu tók blóð að gusast úr lófa hans. Farið var með Harald á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem hann var við nýársfagnað í Reykjanesbæ. Frá HSS var honum vísað til Reykjavíkur þar sem hugað var nánar að sárum hans.

„Ég var kominn heim um hálf fimmleytið á nýarsmorgun eftir aðgerðina. Þessi áramót verða örugglega eftirminnileg síðar meir. Það er kannski hægt að segja að þetta hafi verið lán í óláni víst ekki fór verr,“ sagði Haraldur að lokum.

 

VF-myndir/ Freyja

 

[email protected]

 


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024