Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Evrópusætið svo gott sem komið í hús
Laugardagur 23. september 2006 kl. 12:19

Evrópusætið svo gott sem komið í hús

Segja má að Keflavíkurliðið sé komið í pattstöðu í Landsbankadeildinni. Keflvíkingar eru í 4. sæti deildarinnar með 24 stig og næstu lið fyrir neðan hafa 21 stig en með mun lakari markatölu en Keflvíkingar. Valsmenn hafa 28 stig í þriðja sæti svo Keflvíkingar virðast fastir í fjórða sæti því Fylkir og ÍA í 5. og 6. sæti eru 12 og 14 mörkum á eftir Keflavík.

„Við ræddum það á æfingu að mótið væri ekki búið og við ætlum að klára það með stæl,“ sagði Guðmundur Mete í samtali við Víkurfréttir. „Sigur gegn Blikum í dag heldur líka uppi góðri stemmningu hjá okkur fyrir bikarleikinn en hann hefur ekkert verið að trufla okkur,“ sagði Guðmundur en viðurkenndi þó að fjarvera lykilmanna undanfarið og brotthvarf Hólmars hafi tekið sinn toll af Keflavíkurliðinu. „Við náðum loksins að stilla upp okkar sterkasta liði gegn Val og nú hugsum við bara um þessi þrjú stig sem eru í boði fyrir okkur í deildinni,“ sagði Guðmundur sem gerir sér fyllilega grein fyrir því að Grindvíkingar beri miklar vonir til Keflvíkinga á laugardag því Grindvíkingar geta komist upp fyrir Blika ef þeir vinna FH og Keflavík hefur sigur á Kópavogsvelli.

„Markmið okkar fyrir þessa leiktíð var að gera betur en í fyrra og ná Evrópusæti og á næsta ári eigum við að stefna á toppsætið,“ sagði Guðmundur. Spurður hvort þreytan væri ekki farin að segja til sín sagði hann að vissulega hefði streytan gert vart við sig en nú væru bara tveir leikir eftir af leiktíðinni og menn myndu nýta þá sem allra best.

 

VF-mynd/ Þorgils Jónsson

[email protected]


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024