EVRÓPUKEPPNIN Í KÖRFUKNATTLEIK:
Góður sigur ÍRB Lið Reykjanesbæjar, ÍRB sigraði finnska liðið Huima í Evrópukeppninni í körfuknattleik í gærkvöldi. Lokatölur urðu 84-76 fyrir Suðurnesjaliðið en þeir finnsku voru yfir í leikhléi 33-38.Það var ekki fyrr en um miðjan síðari hálfleik sem ÍRB komst yfir þegar Teitur Örlygsson skoraði átta stig í röð. Þá var ekki aftur snúið og keflvísku og njarðvísku körfuknattleikskapparnir létu ekki forystuna af hendi eftir það. „Þetta var góður sigur. Við lékum ekki vel í fyrri hálfleik en mun betur í þeim seinni. Þriggja stiga skotin gengu illa hjá okkur en þetta hafðist og sigurinn var góður“, sagði Teitur eftir leikinn í gærkvöldi í Keflavík. ÍRB lék ekki eins vel og gegn Lundúnaliðinu á dögunum en þá voru okkar menn í banastuði og léku í raun yfir getu. Stigahæstir hjá ÍRB voru Purnell Perry með 25 stig, Chianty Roberts með 17, Hjörtur Harðar með 15 og Teitur skoraði 13 stig. ÍRB mun leika næstu tvö miðvikudagskvöld í keppninni og vonandi munu fleiri mæta á þá leiki. Bekkirnir voru ekki þétt skipaðir í gær.