Evrópukeppnin: Ævintýrið úti! Dijon sigrar Keflavík
Keflvíkingar eru úr leik í Bikarkeppni Evrópu eftir tap gegn franska atvinnumannaliðinu Dijon í kvöld. Lokatölur úr Íþróttahúsinu við Sunnubraut voru 91-106 gestunum í vil.
Leikurinn byrjaði með því að Nick Bradford hitti 3ja stiga körfu, en eftir það tóku Dijon-liðar góða rispu og skoruðu 11 stig í röð og náðu þar með frumkvæðinu sem þeir héldu út leikinn. Keflvíkingar breyttu þá yfir í pressuvörn sem gekk prýðisvel og voru bókstaflega eins og heftiplástrar á Frökkunum út um allan völl. Þeir minnkuðu muninn niður í eitt stig og héngu í skottinu á Dijon lengi vel. Um leið og leikflautan hljómaði í lok fjórðungsins setti Hjörtur Harðarson góða körfu og var staðan 27-31.
Keflvíkingar misstu Dijon fram úr sér í upphafi annars fjórðungs, en sýndu mikinn karakter með því að vinna muninn upp á nýjan leik þar sem munaði mestu um ótrúlega innkomu Halldórs Halldórssonar sem skoraði 11 stig á skömmum tíma, þar á meðal tvær 3ja stiga körfur. Undir lok hálfleiksins skriðu Fransmennirnir framúr og var staðan í leikhléi 49-54 eftir Keflavík hafði spilað óhemju vel á köflum og staðist „Ofjarlinum“ fyllilega snúning.
Seinni hálfleikur byrjaði með stressi hjá báðum liðum, en Dijon náði fljótlega undirtökunum og voru komnir með 14 stiga forskot fyrir síðasta leikhluta sem Keflvíkingar náðu aldrei að minnka að nokkru marki.
Heimamenn, sem voru studdir dyggilega af um 800 áhorfendum, klóruðu eilítið í bakkann í lokaleikhlutanum og náðu að minnka muninn í 9 stig, 75-84, en þegar um 5 mín. Voru til leiksloka breyttist leikurinn úr hinni ágætustu skemmtun yfir í skrípaleik þar sem dómararnir virtust missa tökin á leiknum og gáfu tæknivillur í allar áttir og þar á meðal fékk Bradford tvær í röð og var sendur í sturtu. Þá sýndi leikmaður Dijon, Barrett að nafni, af sér mjög óíþróttamannslega framkomu og var vikið af velli fyrir vikið. Á leið sinni í búningsklefa hóf hann að ögra áhorfendum, en slíkt sæmir vart atvinnuíþróttamanni, sem er meðal sterkustu leikmanna landsliðs Kanada.
Leiktíminn rann út og, þrátt fyrir mikla baráttu, náðu Keflvíkingar ekki að snúa gangi leiksins sem endaði, eins og fyrr sagði, með 15 stiga sigri Dijon, 91-106.
Að leik loknum var Falur Harðarson, annar þjálfara Keflavíkur, óhress með leik sinna manna í seinni hálfleik, en játaði að betra liðið hefði unnið í kvöld. „Nú er ævintýrið búið! Það er nú þannig að þegar maður er að spila gegn svona góðum liðum má ekki gera mörg mistök því þá verður manni refsað grimmilega. En það sem klikkaði hjá okkur í leiknum var varnarleikurinn í seinni hálfleik.“
Hrannar Hólm, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, var afskaplega sáttur með frammistöðu liðsins í keppninni í ár. „Þetta er gríðarlega spennandi og skemmtilegt verkefni, og ég held að við höfum komið öllum á óvart með árangrinum sem við náðum í þessari keppni.“ Aðspurður um hvort Keflavík stefndi á þátttöku á næsta ári sagði Hrannar að það væri óvíst með næsta ár, þar sem mikil vinna og fjármunir fara í svona framtök. „En það er ekki spurning um hvort við förum aftur í Evrópukeppni, heldur hvenær.“
Derrick Allen var stigahæstur Keflvíkinga með 22 stig, en Nick Bradford kom honum næstur með 18 stig. Gunnar Einarsson kom þeim næstur með 14 stig, en hann vakti mikla aðdáun hjá Frökkunum sem hældu honum á hvert reipi. „Trés Bien!“ Þá skoraði Halldór Halldórsson 11 stig og Hjörtur Harðarson 10.
Í liði Frakkanna var sjarmatröllið Rowan Barrett stigahæstur með 25 stig, en Stefanski skoraði 24 og tók 11 fráköst. Þá skoraði Morlende 19 stig og Monnet 18, en hann tók líka 12 fráköst.
Smellið HÉR til að skoða myndir úr leiknum!