Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Evrópuævintýrið úti
Föstudagur 21. janúar 2005 kl. 00:56

Evrópuævintýrið úti

Evrópuævintýri Keflvíkinga er á enda eftir tap gegn svissnesa liðinu Olympic Fribourg, 85-93. Keflavík þurfti að vinna leikinn með meira en 8 stigum, vegna þess að Fribourg vann fyrri leikinn úti.

Keflvíkingar eru því úr leik í 32-liða úrslitum Bikarkeppni Evrópu líkt og í fyrra og mega vel við una. Þeir hafa með árangri sínum komið íslenskum körfubolta á kortið í Evrópu og er það mikið afrek.

Í upphafi leiks spiluðu Keflvíkingar afar góðan varnarleik og svisslendigar áttu fáa sóknarmöguleika. Sóknarleikurinn var hins vegar mistækur og margar sóknir fóru út um þúfur. Jafnræði var með liðunum framan af en OF seig fram úr með góðum kafla þar sem þeir settu 13 stig á móti 2. Forystan var 11 stig 12-23 þegar skammt var eftir af fyrsta leikhluta, en Magnús Gunnarsson hitti úr 2 þriggja stiga skotum rétt áður en leiktíminn rann út.

Áhorfendur sem fjölmenntu á leikinn héldu eflaust að þetta væri neistinn sem þyrfti til að Keflavíkurhraðlestin hrykki í gang, en svo reyndist ekki vera. Svisslendingar sigu framúr og skoruðu grimmt án þess að Keflvíkingar næðu að svara fyrir sig. Munurinn var orðinn 17 stig, 22-39, og útlitið orðið verulega dimmt. Heimamenn sóttu ögn á fyrir hálfleik þar sem staðan var 39-49.

Í þriðja leikhluta virtist Keflvíkingaum frámunað að mionnka forskotið að ráði. Þeir náðu aldrei upp góðum samfelldum kafla og voru því í sömu sporum fyrir lokasprettinn. Munurinn 11 stig, 61-72.

Þrátt fyrir að munurinn væri mikill og stutt eftir féllust Keflvíkingum aldrei hendur og sóttu í sig veðrið í lokafjórðungum. Þeir minnkuðu muninn niður í 5 stig á skömmum tíma, 67-72. Vörnin var geysilega þétt hjá Keflvíkingum á þessum kafla og skoruðu Fribourgarar sín fyrstu stig eftir 3 mínútna leik. Keflvíkingar misstu þó aftur tök á leiknum og smátt og smátt dofnaði vonin og ljóst var í hvað stefndi. Tapið var staðreynd og Evrópudraumurinn úti þetta árið.

„Sóknin hjá okkur gekk alls ekki nógu vel í kvöld,“ sagði Sigurður Ingimundarson í samtali við Víkurfréttir eftir leik. „Við vorum sennilega of spenntir og við höfum kannski ætlað okkur of mikið.  Við getum gert betur en við sýndum í kvöld en andstæðingarnir voru að spila mjög vel og unnu okkur í tveimur leikjum.“

Anthony Glover var besti maður Keflvíkinga og skoraði 26 stig en menn eins og Nick Bradford, Magnús Gunnarsson og Gunnar Einarsson hafa átt betri daga. Finninn Ville Kaunisto átti góðan leik fyrir Fribourg og skoraði 25 stig ásamt því að vera duglegur undir körfunni. Þá átti Bandaríkjamaðurinn Esterkamp afar góðan leik og setti 18 stig.

Stigahæstir:
Kef: Glover 26, Magnús Gunnarsson 16, Bradford 15, Gunnar Einarsson 13.

OF: Kaunisto 25, Esterkamp 18, Madison 18, Smiljanic 13.
VF-myndir Héðinn Eiríksson og Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024