Evaldas Zabas semur við Njarðvík
Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur hefur samið við Evaldas Zabas um að ganga til liðs við félagið fyrir komandi keppnistímabil í Domino´s-deild karla.
Evaldas er fæddur árið 1988 í Litháen en flutti á unglingsárum til Kanada. Hann er 188 cm, líkamlega sterkur og hraður bakvörður og hefur leikið sem atvinnumaður síðan árið 2008. Hann hefur leikið víða, í sterkum deildum í Þýskalandi, Englandi, Svíþjóð, Tékklandi, Kanada, Litháen, Eistlandi, Grikklandi og Belgíu og í vetur lék hann með TAU Castello í LEB gold á Spáni en það er sama lið og Ægir Steinarsson lék með 2017/2018. Hann lék meðal annars með okkar fyrrum leikmönnum, þeim Giordan Watson og Jeb Ivey, þegar hann var á mála hjá Bremerhaven í Þýskalandi í upphafi atvinnumannaferils síns.