Eva Margrét stefnir á Ólympíuleikana
Hin tólf ára gamla Eva Margrét Falsdóttir hefur æft sund af kappi frá unga aldri en á dögunum keppti hún á AMÍ, Aldursflokkameistaramóti Íslands, þar sem hún náði glæsilegum árangri, en Eva Margrét varð Íslandsmeistari í öllum þeim greinum sem hún keppti.
Hún var stigahæst í meyjaflokki og hlaut svokallaðan „Ólafsbikar“, en hann hlýtur sá keppandi sem vinnur mesta afrekið á mótinu, með tilliti til aldurs. Systir Evu Margrétar, Birta María, hefur einnig hlotið bikarinn.
Eva Margrét æfir alla daga vikunnar, fyrir utan sunnudaga, og skemmtilegast þykir henni að synda bringusund. Þá finnst henni erfiðast að synda flugsund þar sem hún þreytist fyrr. Henni þykir gaman að keppa á sundmótum og undirbýr sig vel fyrir þau. „Maður gerir erfiðari æfingar fyrir mót og þegar það eru svona fjórir dagar í mót byrjar maður að hvíla. Það er líka mikilvægt að fara snemma að sofa og passa hvað maður borðar,“ segir hún.
Aðspurð um framtíðina og markmið segist Eva Margrét stefna langt. „Ég ætla að komast á Ólympíuleikana, allavega.“