Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Eva Lind tryggði Keflavík mikilvæg þrjú stig
Keflavík í sókn. Anita Lind Daníelsdóttir skallar boltann en systir hennar, Eva Lind, bíður átekta. VF/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
sunnudaginn 7. júlí 2024 kl. 16:40

Eva Lind tryggði Keflavík mikilvæg þrjú stig

Keflavík vann mikilvægan sigur á Fylki í botnslag Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í dag. Það var Eva Lind Daníelsdóttir sem skoraði eina mark leiksins, hennar fyrsta í efstu deild.

Keflavík - Fylkir 1:0

Eftir tíðindalitla byrjun sóttu Keflvíkingar hægra megin og sendu inn á teiginn. Gestirnir náðu að skalla frá en boltinn barst til Evu Lindar sem tvínónaði ekkert við hlutina og lét vaða á markið, skotið var fast og út við stöng svo Tinna Brá Magnúsdóttir, markvörður Fylkis, átti enga möguleika á að verja (22').

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ekkert fleira markvert gerðist í fyrri hálfleik og Keflavík því marki yfir þegar seinni hálfleikur fór af stað.

Það voru gestirnir sem fengu fyrsta færið í seinni hálfleik þegar Guðrún Karítas Sigurðardóttir slapp ein í gegn og bara Vera Varis í marki Keflavíkur eftir til varnar en Guðrún setti boltann framhjá og heimakonur sluppu með skrekkinn.

Keflavík sótti nokkuð hart að Fylki dágóða stund en gestirnir fóru að pressa töluvert í lokin eftir skiptingar og ferskir fætur komu inn á völlinn – en heimakonur sóttu hratt við hvert tækifæri og nokkrum sinnum vantaði aðeins herslumuninn (og fleiri í sóknina) til að það skilaði einhverju.

Leikurinn var báðum liðum mikilvægur og það sem helst einkenndi hann var mikil barátta en minna fór fyrir gæðafótbolta. Sigur Keflavíkur var sanngjarn og stigin þrjú vel þegin en Keflavík er áfram í fallsæti, einu stigi á eftir Þrótti sem á leik til góða.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók meðfylgjandi myndir. Myndasafn neðst á síðunni.

Keflavík - Fylkir (1:0) | Besta deild kvenna 7. júlí 2024