Erum besta liðið á Íslandi þegar við spilum svona
Laugardalsvöllur gæti allt eins verið annar heimavöllur Keflvíkinga en þeir lögðu Víkinga að velli í kvöld 4-0. Keflvíkingar hafa í gegnum tíðina átt góðri lukku að stýra á Laugardalsvelli og nú eru þeir komnir í úrslit VISA bikarkeppninnar. Guðmundur Steinarsson gerði tvö mörk í leiknum en þeir Jónas Guðni Sævarsson og Þórarinn Brynjar Kristjánsson gerðu sitt markið hvor.
Fyrsta góða marktækifæri Keflvíkinga kom á 5. mínútu leiksins þegar langur bolti barst inn í teig til Þórarins sem fór illa með gott færi og skaut hátt yfir Víkingsmarkið.
Bæði lið voru spræk í upphafi leiks og áttu fínar sóknarlotur. Keflvíkingar héldu boltanum meira innan liðsins en Víkingar beittu oft hröðum sóknum og komu vörn Keflavíkur nokkrum sinum í vandræði með vel tímasettum sendingum upp í hornin sem oftar en ekki gátu af sér þokkalegar fyrirgjafir.
Á 17. mínútu áttu Víkingar gott skot að marki frá vinstri kanti sem Ómar Jóhannsson varði út í teiginn. Nokkur hætta var á ferðum en vinstri bakvörðurinn Hallgrímur Jónasson bægði hættunni frá.
Jónas Guðni Sævarsson kom Keflvíkingum í 1-0 á 22. mínútu leiksins en þetta var jafnframt hans fyrsta bikarmark og það með vinstri fæti en Jónas er réttfættur. Jónas laumaði sér inn í teig og fékk þar góða sendingu sem hann afgreiddi með vinstri fram hjá Ingvari markverði Víkinga. Keflavík 1-0 Víkingur.
Tíu mínútum síðar áttu Víkingar gott færi þegar Viktor Bjarki Arnarsson skaut að marki í góðu færi en boltinn fór langt fram hjá og vonbrigði Viktors leyndu sér ekki.
Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 Keflavík í vil.
Víkingar hófu síðari hálfleik með glæsibrag og áttu fast skot í slá á 50. mínútu og virtust til alls líklegir. Við sláarskotið virtust Keflvíkingar vakna af værum fimm mínútna blundi og í næstu sókn var Guðmundur Steinarsson einn fyrir opnu marki og skaut í stöng, sem telst næstum því afrek hjá jafn reyndum sóknarmanni og Guðmundi.
Nokkur barátta var í leiknum en Keflvíkingar höfðu í flestum aðgerðum yfirhöndina og á 71. mínútu brutu þeir ísinn endanlega þegar Þórarinn Kristjánsson brunaði upp endalínuna hægra megin og sendi boltann fyrir markið. Þar kom á öðru hundraðinu Guðmundur Steinarsson og bætti upp stangarskotið með því að senda boltann í netið. Keflavík 2-0 Víkingur. Fjórum mínútum síðar fékk Símun Samuelsen gult spjald fyrir að dýfa sér í teignum en hann var ekki sáttur við þá ákvörðun dómarans og vildi meina að brotið hefði verið á sér.
Keflvíkingar hertu frekar róðurinn og aðeins þremur mínútum eftir að Símun hafði verði sýnt gult spjald var komið að Þórarni Kristjánssyni. Þórarinn lenti í kapphlaupi við einn varnarmanna Víkinga og hafði betur. Hann brunaði inn í vítateig með boltann og lagði knöttinn snyrtilega fram hjá Ingvari markverði Víkinga. Staðan því 3-0 Keflavík í vil og sigurinn í höfn.
Keflvíkingar voru hvergi nærri hættir þegar Branislav Milicevic var kominn einn að endamörkum á 88. mínútu. Hann sendi knöttinn inn í teiginn á Guðmund Steinarsson sem gerði sitt annað mark. Keflavík 4-0 Víkingur. Afar óeigingjarnt hjá Branislav en margir hverjir hefðu látið vaða á markið úr hans færi.
,,Það voru einhverjir inni í klefa í hálfleik sem vildu bakka með liðið en við töldum það óráðlegt að bakka og halda einu marki í 45 mínútur og lögðum þess í stað áherslu á að halda boltanum og sækja upp kantana. Þannig komu mörkin í síðari hálfleik,” sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir eftir leikinn í kvöld. Aðspurður um mótherjana í bikarúrslitunum átti Kristján frekar von á því að mæta KR. ,,Þróttur mun samt spila þennan leik sem sinn bikarúrslitaleik og koma til með að setja mikinn kraft og mikið púður í leikinn,” sagði Kristján sem var ánægður með frammistöðu sinna mann í kvöld. ,,Þegar við spilum svona, spilum eins og menn, þá erum við besta liðið á Íslandi. Málið er að gíra menn upp í svona spilamennsku,” sagði Kristján kampakátur í leikslok.
KR og Þróttur mætast í hinum undanúrslitaleik VISA bikarsins á morgun og þá ræðst hvaða lið leikur til úrslita gegn Keflavík þann 30. september næstkomandi.