Eru 200% líkur á að Hörður Axel fari í úrslitin?
Hörður Axel Vilhjálmsson, nýkjörinn íþróttamaður Reykjanesbæjar, kemur við sögu í báðum bikarkeppnunum en Hörður stýrir kvennaliði Keflavíkur og leikmaður og fyrirliði karlaliðsins. Víkurfréttir heyrðu stuttlega í Herði fyrir leikina í undanúrslitunum.
Jæja, hvernig er ertu stemmdur í dag?
„Bara mjög spenntur, fullur tilhlökkunar. Gaman að fá að taka þátt í bikarhelginni því það er ekki sjálfgefið.“
Hvernig meturðu líkurnar hjá ykkur í undanúrslitunum í kvöld?
„Þessi leikur eins og allir bikarleikir er bara 50/50. Maður þarf að mæta með fulla einbeitingu og vel undirbúinn, bæði andlega og líkamlega, í svona leiki til þess að ná þeim úrslitum sem maður sækist eftir.“
Þið rennið kannski blint í sjóinn með stelpuleikinn, þar sem liðin eru í sitthvorri deildinni, eða ertu búinn að kynna þér Stjörnuliðið vel?
„Við teljum okkur vera búin að undirbúa okkur eins vel og við getum fyrir þennan leik. Við höfum farið yfir þeirra leik og hvað þær vilja gera en óvissuþátturinn er kannski mestur í því að við höfum ekki fengið að máta okkur við þær í vetur eins og á móti öllum liðum í efstu deild.“
Hvernig er dagurinn planaður hjá ykkur?
Dagurinn er skipulagður mjög svipað og hver annar leikur, því þótt þetta sé bikarleikur þá er þetta samt körfuboltaleikur eins og við erum vanar að spila. Þannig við nálgumst þennan leik á sama hátt og aðra leiki, hvað leikdag varðar.“
Að lokum, myndirðu ekki taka undir með mér að líkurnar séu meiri en minni á að þið mætið Haukum í úrslitum á laugardaginn?
„Allur fókusinn hjá okkur er á leiknum í kvöld, engin ástæða til að fara að hugsa lengra og hvað gæti mögulega gerst. Tökum einn dag og einn leik í einu.“
Snúum okkur að körlunum, hvaða tilfinningu hefurðu fyrir Stjörnuleiknum á morgun?
„Ég er tilbúinn að spila eins og við allir, spenntur að fá að taka þátt í þessu bæði sem þjálfari og leikmaður.“
Þið mættuð Stjörnunni strax í annarri umferð og höfðuð betur (86:92). Er eitthvað sem ætti að standa í vegi fyrir sigri á morgun?
„Hver leikur hefur sitt eigið líf. Að við höfum unnið Stjörnuna í leik í byrjun tímabils mun ekki hjálpa okkur neitt í leiknum á morgun enda allt annað lið sem við spiluðum við þá. Búið að vera mikið af mannabreytingum hjá þeim.“
Undir eðlilegum kringumstæðum ætti Keflavík að keppa til úrslita í bæði bikarkeppni karla og kvenna. Erum við ekki sammála um það? Er þá ekki hægt að segja að það séu nánast 200% líkur á að Hörður Axel sé að fara í bikarúrslit í ár?
„Fyrir mér er þetta bara 50/50 hvort ég sé á leið í úrslitaleik á laugardag eða ekki – en ég mun reyna allt sem í mínu valdi stendur til að vinna báða leikina eins og allir leikmenn og þjálfarar allra liða sem eru að taka þátt í dag og á morgun. Til þess að vinna körfuboltaleik þarf ansi margt að ganga upp, með því að leggja sig mikið fram og vera undirbúinn undir það sem koma skal, eykurðu líkurnar á að hlutirnir gangi upp og þú náir að kaupa þína eigin lukku með ósérhlífni og aggression.“