„Ertu að grínast?“
Keflvíkingar munu ekki fá að verja titil sinn gegn erkifjendum sínum í Njarðvík, en þeir töpuðu fyrir Skallagrími á heimavelli sínum í kvöld, 80-84, í einum eftirminnilegasta körfuboltaleik síðari ára. Þetta er í fyrsta sinn sem Skallagrímur kemst í úrslit úrvalsdeildar.
Í þessum oddaleik í undanúrslitum Íslandsmótsins leiddu Skallagrímsmenn nær allan leikinn en rafmögnuð spenna var í troðfullu Sláturhúsinu allt fram á síðustu andartök.
Taugatitringur einkenndi upphaf leiksins þar sem opnunarkarfa AJ Moye voru einu stigin sem skoruð voru fystu 2 og hálfa mínútuna. Eftir það sjóðhitnaði Hafþór nokkur Gunnarsson sem átti svo sannarlega eftir að láta vita af sér. Hann setti fjórar þriggjastiga körfur á 5 mínútum og var aðalsprautan í 2-18 kafla Borgnesinga. Auk þess var George Byrd algerlega einráður undir körfunum.
Sóknarleikur Keflavíkur var alls ekki að ganga vel og þrátt fyrir að þeir fengju nokkur góð færi vildi boltinn ekki ofan í. Þeir náðu þó að minnka muninn eilítið fyrir lok leikhlutans og var staðan þá 13-22.
Varnarleikur Keflvíkinga var góður í öðrum leikhluta og söxuðu heimamenn á forskotið jafnt og þétt. Þeir náðu að minnka muninn niður í 7 stig, 25-32, en Skallagrímsmenn sigu aftur framúr og höfðu 14 stiga forskot í hálfleik, 28-42.
Eftir hálfleik hélt eltingarleikurinn áfram þar sem AJ Moye og Sverrir Þór Sverrisson fóru fyrir Keflvíkingum. Munurinn minnkaði stig af stigi þar til Magnús Gunnarson kom heimamönnum yfir, 60-59, með magnaðri 3ja stiga körfu. Dimitar Karadzovski átti þó lokaorðiði í þriðja leikhluta með 2ja stiga körfu.
Lokaleikhlutinn var ótrúlega spennandi þar sem gestirnir voru með naumt forskot lengst af. Jón Norðdal kom þeim svo yfir, 80-78 með því að blaka boltanum í körfuna og var útlit fyrir að meistararnir færu loks að sýna sitt rétta andlit.
Byrd þjösnaði sér hins vegar inn að körfunni eins og honum einum er lagið og jafnaði leikinn fyrir sína menn.
Í næstu sókn missti Jón Norðdal boltann svo klaufalega frá sér og kom Borgnesingum í lykilstöðu enn á ný.
Dimitar kom knettinum inn á Byrd sem hitti ekki úr skoti sínu en náði frákastinu og braut Arnar Freyr Jónsson á honum. Eitthvað var Arnar, sem fékk þar með sína fimmtu villu, ósáttur við dóminn. Spurði hann því Rögnvald Hreiðarsson, dómara, að því að heimildir Víkurfrétta herma, hvort hann væri að grínast. Rögnvaldi var hins vegar ekki hlátur í huga og gaf Arnari tæknivillu fyrir vikið.
Byrd fór á línuna og klikkaði úr báðum sínum skotum, en Pétur Sigurðsson, sem átti frábæran leik setti bæði vítin fyrir tæknivilluna og kom sínum mönnum í 80-82 þegar 28 sekúndur lifðu af leiknum. Skallar fengu að auki boltann og nýttu sóknina vel áður en Jovan Zdravevski skoraði síðustu stig leiksins með erfiðu skoti.
5 sekúndur lifðu þá af leiknum en lokaskot Sverris Þórs af löngu færi geigaði.
Borgnesingar fögnuðu sem óðir væru og fá nú færi á að leggja þriðja Suðurnesjaliðið á leið sinni að titlinum.
Þegar leikurinn er skoðaður sést að Keflvíkingar áttu alls ekki góðan leik í kvöld. Margir lykilmenn voru að bregðst á ögurstundu og kann slíkt ekki góðri lukku að stýra, sérstaklega þegar Skallagrímsmenn eiga svo góðan leik.
Niðurstaðan er hins vegar sú að Keflvíkingar, meistarar síðustu þriggja ára, eru úr leik og verða í áhorfendastúkunni í úrslitum í fyrsta sinn frá árinu 2001 þegar Tindastóll sló þá út í undanúrslitum.
Njarðvíkingar tóku við keflinu það árið og verður fróðlegt að sjá hvort sú verði raunin í ár.
VF-myndir/ Þorgils og JBÓ