Erla í 12. sæti í 200 m fjórsundi
Sundkonan Erla Dögg Haraldsdóttir frá ÍRB hafnaði í 12. sæti í 200 m fjórsundi á Opna Hollenska sundmótinu í dag. Erla var með níunda besta tímann eftir undanrásir í morgun og syndi á tímanum 2.21.69 mín en í B úrslitum fyrir stundu kom hún í mark á 2.23,66 mín og hafnaði í 12. sæti.
Ólympíulágmarkið er 2.19,97 mín og því náði Erla ekki Ólympíulágmarkinu fyrir 200 m fjórsundið að þessu sinni. Á morgun keppir hún í 50 m bringusundi en ekki er keppti í þeirri grein á Ólympíuleikum. Hún mun síðan á sunnudag reyna við Ólympíulágmarkið í 100 m bringusundi. Fyrir sundið í dag var Erla með átjánda besta tímann í fjórsundinu af keppendum og klifraði því upp um sex sæti.
Mótið í Hollandi er mjög sterkt að sögn Steindórs Gunnarssonar þjálfara Erlu hjá ÍRB og sagði Steindór í samtali við Víkurfréttir að margir af bestu sundmönnum heims væru á mótinu sem myndu örugglega láta að sér kveða á Ólympíuleikunum í Peking á næsta ári.
VF-Mynd/ [email protected] – Erla Dögg hafnaði í 12. sæti í 200 m fjórsundi.