Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Erla Dögg sjöunda hraðasta í heiminum í ár
Laugardagur 9. apríl 2011 kl. 22:05

Erla Dögg sjöunda hraðasta í heiminum í ár


Það var sannkölluð flugeldasýning hjá sundfólki ÍRB á meistaramótinu í dag. Erla Dögg Haraldsdóttir átti hreint út sagt frábæran dag sem byrjaði á því að hún sigraði 50 metra bringsund á glæsilegu Íslandsmeti, 31,96 sem er sjöundi besti tíminn í heiminum í ár sem er stórkostlegt hjá Erlu Dögg, Hrafnhildur Lúthersdóttir SH átti metið og hafnaði í öðru sæti í dag.

Erla Dögg var alls ekki hætt því hálftíma síðar bætti hún sitt eigið Íslandsmet og sigraði í 200 metra fjórsundi en metið setti hún fyrir þremur árum síðan. Erla Dögg náði lágmörkum á heimsmeistaramótið í Shanghai í sumar í báðum þessum sundum sem voru að sjálfsögðu einnig ÍRB og Njarðvíkurmet.

Árni Már Árnason sigraði 50 metra skriðsund með þó nokkrum yfirburðum og synti á mjög góðum tíma, 22,94 sem er einungis 4 hundraðshlutum frá lágmarkinu á heimsmeistaramótið.

Davíð Hildiberg Aðalsteinsson bætti sinn fyrri árangur í 50 metra baksundi og synti á 26,99 og sigraði nokkuð örugglega. Þar að auki hlaut Davíð bronsverðlaun í 100 metra flugsundi.

Jóhanna Júlía Júlíusdóttir náði lágmarki á Evrópumeistaramót unglinga með glæsilegu 200 metra fjórsundi, mótið fer fram í Belgrad, Serbíu. Jóhanna hafnaði í þriðja sæti í sundinu.

Jóna Helena Bjarnadóttir sýndi styrk sinn enn og aftur þegar hún krækti sér í silfurverðlaun í 400 metra skriðsundi á nýju persónulegu meti.

Soffía Klemenzdóttir hlaut bronsverðlaun í 100 metra flugsundi á tímanum 1:06,80.


Ólöf Edda Eðvarðsdóttir setti ÍRB og Keflavíkurmet í 200 metra fjórsundi í telpnaflokki og náði í leiðinni lágmörkum á sundkeppni Olympíudaga æskunnar sem fer fram í Tyrklandi.

Aðrir sundmenn voru að standa sig með mikilli prýði sem sýnir sig í því að heildarbætingar voru yfir 80% í dag. Á morgun er lokadagur meistaramótsins og eru sundmenn ÍRB staðráðnir í að enda mótið með stæl.


Sjóðheitar sundfréttir á keflavik.is.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024