Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Erla Dögg: Reynsla sem nýtist mér í framtíðinni
Miðvikudagur 13. ágúst 2008 kl. 13:50

Erla Dögg: Reynsla sem nýtist mér í framtíðinni

Erla Dögg Haraldsdóttir hefur lokið þátttöku sinni á Ólympíuleikunum. Það er mikið afrek hjá íþróttamönnum að komast á Ólympíuleikana en Erla Dögg keppti í 200m fjórsundi og 100m bringusundi á leikunum. Hún komst ekki áfram úr undanriðlum og er ekki sátt með árangur sinn á leikunum en telur að hún hafi fengið mikla reynslu.

„Ég er ekki ánægð með árangur minn á leikunum, en þetta er reynsla sem mun nýtast mér vel í framtíðinni. Það er ótrúleg tilfinning að keppa á Ólympíuleikunum og varla hægt að lýsa því í orðum. Það er æðislegt að vera hér og vera hluti af þessum stóra viðburði,“ sagði Erla sem telur að það sé mikil viðbrigði á að keppa á Ólympíuleikunum og öðrum mótum.

„Umstangið á Ólympíuleikunum er miklu meira, blaðamenn og myndavélar út um allt og stemmningin rosaleg. Það er alltaf uppselt og um 17.000 manns að fylgjast með. Þegar maður gengur inn til að keppa þá gleymir maður öllu og einbeitir sér að sinni braut,” sagði Erla.



Það er hægt að gera ýmislegt annað en að horfa á íþróttir í íþróttaþorpinu í Peking. „Það er nóg um að vera hér í þorpinu, búðir, hand- og naglasnyrting, spilasalir og fleira. Við erum líka að horfa á sjónvarpið eða að rölta um þorpið og hitta annað íþróttafólk,“ sagði Erla sem bætir við að það sé mikil stemmning í íslenska Ólympíuhópnum. „Það er mikil stemmning og allir eru rosa hressir og skemmtilegir. Við erum eins og ein stór fjölskylda. Fúsi (Sigfús Sigurðsson) úr handboltanum er stuðboltinn í hópnum og er yfirleitt í miklu stuði,“ sagði Erla.

Mikið hefur verið rætt og skrifað um mengunina í Peking. Erla hefur þó ekki fundið mikið fyrir henni. „Ég hef ekkert fundið fyrir henni þó að það sé stundum eins og það sé þoka. Hún hefur ekki haft nein áhrif á mig.“

Erla lagði mikið á sig við að komast á Ólympíuleikanna en fjölskyldan stóð þétt við bakið á henni í því verkefni. „Ég vil þakka fjölskyldu minni, vinum og þjálfara sem hafa stutt mig alveg gríðarlega í gegnum tíðina og einnig vil ég þakka öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem hafa stutt mig fjárhagslega en án alls þessa stuðnings hefði ég ekki komist svona langt.“


VF-MYND/Halli: Erla Dögg (t.v.) er hér ásamt Árna Má Árnasyni og Sigrúnu Brá Sverrisdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024