Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Erla Dögg íþróttamaður UMFN 2007
Miðvikudagur 25. júní 2008 kl. 10:51

Erla Dögg íþróttamaður UMFN 2007

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Erla Dögg Haraldsdóttir, sundkona, var í gær sæmd titlinum Íþróttamaður UMFN fyrir árið 2007. Ekki er hægt að segja að þessi útnefning hafi komið á óvart þar sem Erla átti frábært ár í fyrra og er langt í frá hætt. Hún hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Peking síðar á árinu og farið eins og eldur í sinu um metabækur Sundsambandsins undanfarin misseri. Hún sló einmitt eigið met í 100m bringusundi um helgina.


Hver deild félagsins tilnefndi einn íþróttamann og voru það eftirtaldir: Knattspyrnumaður UMFN: Gestur Gylfason. Körfuknattleiksmaður UMFN: Brenton Birmingham. Lyftingarmaður UMFN: Sævar Borgarsson. Sundmaður UMFN: Erla Dögg Haraldsdóttir

Þá voru þrír aðilar sæmdir silfurmerki UMFN, þau Björn Jóhannsson, Edda Ottósdóttir og Haraldur Hreggviðsson.

Einnig var Oddbergur Eiríksson sæmdur gullmerki félagsins fyrir áratugastarf í stjórnum þess, lengst af sem ritari og eru hans verk frábær heimild um starf UMFN og ekki síður um mannlífið í Njarðvík.

Þá fékk Örvar Þór Kristjánsson afhentan Ólafsbikarinn, sem gefinn er í nafni Ólafs Thordersen. Bikarinn er sérstaklega hugsaður sem viðurkenning fyrir þá sem hafa unnið ötullega fyrir barna- og unglingastarf UMFN.

Loks voru veittir veglegir styrkir úr styrktarsjóði félagsins en þá hlutu: 9.flokkur karla í körfuknattleik, Árni Már Árnason, Erla Dögg Haraldsdóttir Gunnar Örn Arnarson, Sindri Þór Jakobsson, Sturla Ólafsson og Örvar Þór Kristjánsson.

VF-myndir/Þorgils -  1: Erla Dögg tekur á móti verðaununum úr hendi Kristjáns Pálssonar, formanns UMFN. 2: Oddbergur Eiríksson hélt stutta en hnitmiðaða þakkarræðu.