Erla Dögg hefur lokið keppni
Njarðvíkingurinn Erla Dögg Haraldsdóttir náði sér engan veginn á strik í 200 metra fjórsundi frekar en hún gerði í 100 metra bringusundi í gær.
Hún synti á 2:20,53 mínútum sem er tæpum tveimur sekúndum frá Íslandsmeti hennar sem hún setti í apríl síðastliðnum.
Hún keppti á fjórðu braut í fyrsta riðlinum en kom í mark í fjórða sæti af þeim sex keppendum sem tóku þátt. Alls varð hún í 35. sæti af 38 keppendum.
Erla Dögg byrjaði ágætlega og var á undan Íslandsmetstíma sínum eftir fyrsta snúninginn en eftir það fór að halla undan fæti.
Erla Dögg hefur nú lokið keppni á Ólympíuleikunum í Peking.