Erla Dögg á öll fjórsundsmetin
Erla Dögg Haraldsdóttir sundkona á nú öll fjórsundsmetin í 25 metra laug eftir að hún bætti á dögunum sjö ára gamalt met Láru Hrundar Bjargardóttur í 400 metra fjórsundi.
Erla Dögg bætti metið, á metamóti ÍRB sem fram fór í Vatnaveröldinni í Keflavík á dögunum, um tæplega þrjár sekúndur. Erla Dögg á nú öll þrjú fjórsundsmetin í stuttri laug því hún setti met í bæði 100 og 200 metra fjórsundi í nóvember. Erla setti einnig met í vetur í 50 og 100 metra bringusundi sem og 200 metra flugsundi og á því nú sex Íslandsmet í 25 metra laug eftir veturinn.