„Erfitt að fylgjast með úr stúkunni“
Á meðal áhorfenda í Fylkisstúkunni í gær var Kristján nokkur Guðmundsson, þjálfari Keflvíkinga, en hann mátti ekki stjórna liðinu gegn Fylki í gær því hann var rekinn af velli gegn ÍA. Kristinn Guðbrandsson stjórnaði Keflavíkurliðinu í leiknum en Víkurfréttir hittu þjálfarana að máli eftir leikinn í Fylkisstúkunni.
„Það var mjög erfitt að fylgjast með strákunum úr stúkunni,“ sagði Kristján. „Ég virti bara þær reglur sem gilda þegar þjálfari er í leikbanni. Það var mjög óþægilegt að geta ekki verið að öskra á strákana og segja þeim aðeins til,“ sagði Kristján sem undirbýr nú sína menn fyrir fyrsta leikinn gegn Dungannon Swifts í Inter Toto keppninni. „Nú er bara gott fyrir okkur að einbeitningin sé komin aðeins af Landsbankadeildinni og í Evrópuleikinn eftir þrjá tapleiki í röð, gott að fara að gera eitthvað nýtt,“ sagði Kristján.
Þó Keflavík hafi tapað þremur leikjum í röð þá hefur aldrei mátt miklu muna og Kristján veit upp á hár hvað vantar. „Við þurfum bara að fara að skora mörk, varnarleikur liðsins er ágætur en við erum ekki að skapa okkur nægilega mörg og nægilega góð færi,“ sagði Kristján að lokum en hann var ekki einn um að sitja stúkuna úr Keflavíkurliðinu í gær. Skammt frá Kristjáni sást glitta í Guðmund Mete sem tók út leikbann og Kenneth Gustavsson sem enn er meiddur.
Kristinn Guðbrandsson stjórnaði Keflavíkurliðinu í fjarveru Kristjáns en hann hafði ekkert út á vítaspyrnuna að setja en það sem fylgdi í kjölfarið finnst Kristni full strangt. „Mér sýndist þetta vera víti, en mér hefur alltaf fundist það vera mjög harður dómur að dæma víti, sem er 80% mark, og gefa svo rautt spjald. Þegar markið svo kemur úr vítaspyrnunni þá ert þú einum færri og marki undir,“ sagði Kristinn Guðbrandsson.
„ Mér fannst við vera ágætlega sterkir í fyrri hálfleik en svo lendum við í því að vera einum færri strax í upphafi seinni hálfleiks. Strákarnir lögðu sig alla fram eftir það og það var virðingarvert,“ sagði Kristinn að lokum.
Keflavík mætir Dungannon Swifts n.k. laugardag eða á þjóðhátíðardaginn 17. júní og það dugir ekkert annað en sigur í tilefni dagsins. Leikurinn hefst kl. 17:00 á Keflavíkurvelli.
[email protected]