Erfitt að fá Suðurnesjamenn í liðið
Segir Atli Eðvaldsson þjálfari Reynismanna
Sandgerðingar eru á blússandi ferð eftir mjög erfiða byrjun í 2. deild Íslandsmótsins í knattspyrnu og Víkurfréttir heyrðu í þjálfara liðsins Atla Eðvaldssyni.
Undanfarið hafa Reynismenn verið á blússandi siglingu í 2. deild í knattspyrnu karla. Sandgerðingar hafa unnið fjóra leiki í röð og hefur vörnin haldið markinu hreinu í yfir 390 mínútur. Atli Eðvaldsson þjálfari Reynis vonast að sjálfsögðu eftir áframhaldandi velgengni en tímabilið hófst skelfilega hjá lærisveinum hans. „Undirbúningstímabilið var ekki með besta móti. Við fengum úthlutaðan tíma í Reykjaneshöll tvisvar í viku klukkan 21:30 á kvöldin. Margir leikmenn komust illa á þeim tíma og oft vorum bara 4-5 leikmenn að mæta á æfingu í allan vetur,“ sagði Atli í samtali við Víkurfréttir og heyra má að hann sé ekki sáttur með aðstöðuna yfir vetrartímann. „Undirbúningur okkar var langt frá því að vera góður,“ segir Atli en Sandgerðingum gekk afar illa í byrjun móts. Hann þvertekur þó fyrir það að hafa hugsað um að hætta með liðið á nokkrum tímapunkti.
Nú eru Reynismenn í 7. sæti deildarinnar og Atli hefur trú á því að velgengni Sandgerðinga geti haldið áfram. „Þetta hefur verið erfið æfing en við höfum smátt og smátt verið að stækka hópinn og bæta okkur.“
Atli segir að erfitt hafi verið að sækja leikmenn á Suðurnesjum og því hafi Reynismenn þurft að leita út fyrir Suðurnesin til þess að styrkja hóp sinn. Hann leitaðist eftir því að fá leikmenn frá Keflavík og öðrum liðum á svæðinu en hafði ekki árangur sem erfiði. Að hans mati er þróunin hvað leikmannauppbyggingu hér á svæðinu á leið í ranga átt. Atli hefur lagt áherslu á að fá til sín leikmenn sem ekki fái tækifæri annars staðar. „Í fyrra spiluðu 33 leikmenn fyrir Reyni Sandgerði, en ég var með örfáa leikmenn á æfingu. Maður spyr sig því hvað hafi orðið um þessa leikmenn.“
Atli er á því að Suðurnesjamenn séu það knattspyrnusinnaðir og miklir íþróttamenn, að ekki eigi að þurfa að leita út fyrir svæðið. „Að við getum ekki haldið þessum liðum uppi með uppöldum leikmönnum. Nógur er efniviðurinn,“ segir Atli sem telur að þessu verði að breyta. „Það þarf ekki að eyða um efni fram í einhverja drauma sem standa yfir í nokkrar vikur og klikka oftast. Það er hægt að byggja upp og við þurfum að þjálfa okkar fólk rétt.“
Landslagið í 2. deild er erfitt að mörgu leyti en Atli segist njóta hverrar mínútu í Sandgerði. „Mér finnst þetta æðislegt. Aðstaðan er ein sú besta og vellirnir frábærir. Kjartan (Másson) sér um vellina eins og börnin sín. Æfingavöllurinn okkar er betri en keppnisvöllur flestra liða. Stjórnin hjá Reyni elskar fótbolta og samheldnin er mikil hjá þeim hópi.“ Það kom mörgum á óvart að Atli skyldi kjósa að þjálfa lið í 2. deild en hann sóttist eftir því að fara í umhverfi sem væri algerlega ómótað. „Ég hlakka til þess að mæta á hverja einustu æfingu. Það er ekkert skemmtilegra en að vera úti á iðagrænum velli, með unga knattspyrnumenn sem þyrstir í að læra og bæta sig. Þetta er lífstíll,“ segir Atli og hlær.
Sumarið 2007 sat Atli á sólríkum degi á skrifstofu þar sem hann starfaði. Hann leit út um gluggann og áttaði sig á því að hann væri á röngum stað. Hann ákvað að mennta sig í þjálfarafræðum í Þýskalandi og nú sér hann fram á að vera viðriðinn knattspyrnu það sem eftir er. „Þetta eru forréttindi. Ég gat ekki verið inni á skrifstofunni,“ segir Atli að lokum.