Erfiðara að vera á hliðarlínunni
Fimmaurabrandari gæti fallið í leikhléi hjá Grindavík
	Sverrir Þór Sverrisson stýrir kvennaliði Grindavíkur í bikarúrslitaleiknum gegn Keflavík en hann hefur líkt og Sigurður þjálfari Keflavíkur ágæta reynslu úr slíkum leikjum. Hann stýrði kvennaliði Njarðvíkur til sigurs í þessari keppni árið 2013 og árið 2004 gerði hann karlalið Grindavíkur að bikarmeisturum. Grindavík hefur einu sinni sigrað í þessari keppni, árið 2008, en alls hefur liðið leikið fjórum sinnum til úrslita og er leikurinn á laugardaginn fimmti úrslitaleikur kvennaliðs Grindavíkur.
	Sverrir segir í samtali við Víkurfréttir að undirbúningur liðsins verði nokkuð hefðbundinn. „Stelpurnar munu hittast eitthvað í vikunni og gera sér glaðan dag. Leikdagur verður með sama sniði og vanalega.“
	Lykilatriði Grindavíkur í bikarúrslitaleiknum verða liðsvörn og agi.
	„Við þurfum að spila öfluga liðsvörn ,frákasta vel og spila agaðan sóknarleik til að landa sigri í þessum úrslitaleik.“
	Sverrir hefur mikla reynslu af því að vera leikmaður í bikarúrslitaleikjum og hann væri alveg til í að vera inn á vellinum en ekki á hliðarlínunni. „Það er miklu erfiðara að vera á hliðarlínunni heldur en að vera inná vellinum sem leikmaður og það þekkjum við sem höfum bæði spilað og þjálfað.“
	Fimmaurabrandari gæti fallið í leikhléi hjá Grindavík ef vel liggur á Sverri – en hann íhugaði að láta einn slíkan fjúka í leik hjá karlaliðinu gegn KR á dögunum.
	„Eftir KR leikinn hjá karlaliðinu um daginn gæti brandarinn alveg eins virkað. Það er nú sem betur fer oftast sem skilaboðin komast til skila og leikmenn eru með allt á hreinu þegar inn á völlinn er komið eftir leikhlé.“
	Ef Sverrir fengi að henda inn einu lagi í lagalistann á leikdeginum þá nefnir hann tvö lög í því samhengi. „Live is life með Opus kæmi sterklega til greina ásamt Pride með U2.“


 
	
				


 
						 
						 
						 
						 
						 
						


 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				