Er vel búinn á því eftir þriggja tíma æfingu
-Jón Axel stundar nám í USA og spilar körfu með Davidson háskólanum
Jón Axel Guðmundsson var útnefndur í fyrsta úrvalslið annars árs nema í Atlantic 10 deild bandaríska háskólaboltans. Það var veftímaritið A10 talk sem valdi liðið en Jón Axel segir að hann hafi lagt mikið á sig til þess að komast í þetta lið í ár þar sem hann var ekki valinn í fyrra í fyrsta árs liðið þrátt fyrir að hafa staðið sig vel. Jón Axel stundar nám úti ásamt því að spila körfubolta. Við spurðum Jón Axel út í lífið í Bandaríkjunum, námið og fleira.
Í hvaða skóla ertu og hvað ertu að læra?
Ég er í Davidson háskólanum og er að læra félagsfræði.
Með hvaða liði spilar þú?
Davidson.
Kom það þér á óvart að vera útnefndur í úrvalslið annars árs nema?
Já og nei eiginlega. Ég var ekki valinn í fyrsta árs liðið eftir tímabilið og það kom mér meira á óvart þar sem ég spilaði sem einn af bestu fyrsta árs nemunum. Allir þjálfararnir sögðu að þetta væri bara rugl og sögðu að ég þyrfti að æfa vel í sumar og sýna þeim að þeir gerðu mistök með því að velja mig ekki. Þannig ég var valinn núna eftir að aðalleikmaður liðsins, sem var í sömu stöðu og ég, fór. Hlutverkið mitt varð því stærra og þá kom þetta mér ekkert svakalega á óvart þannig séð en fyrst ég var ekki valinn í fyrsta árs liðið þá var ég smá efins um þetta.
Hvað er mest krefjandi hjá þér núna?
Lærdómurinn og æfingarnar. Lærdómurinn hér er erfiður og mikil heimavinna þannig að ef þú ert ekki á æfingu þá ertu annað hvort í tíma eða einhvers staðar að læra.
Hvernig eru æfingarnar hjá liðinu þínu?
Þær eru langar og erfiðar. Við æfum í tvo og hálfan til þrjá tíma á dag og fáum kannski einn til tvo daga í frí í hverri viku. Þjálfarinn sættir sig ekki við neitt annað en 100% allan tímann þannig eftir þriggja tíma æfingu er ég vel búinn á því.
Saknar þú einhvers á Íslandi?
Já, ég sakna fjölskyldunnar og vina minna mikið en á sama tíma hef ég eignast nýja vini hér, á kærustu og körfuboltaliðið er eins og ein stór fjölskylda, það hjálpar mikið.
Hvað tekur við að loknu náminu?
Maður stefnir á toppinn ég ég vil spila í NBA en ef það gengur ekki upp þá mun ég líklega spila í Evrópu eða eitthvað álíka. Svo eftir körfuboltalífið vonast ég til þess að geta unnið eitthvað tengt körfubolta.