Er Valsgrýlan endanlega farin?
Valsleikur færður á gervigras í Laugardal
Ákveðið hefur verið að leikur Vals og Keflavíkur í Pepsi-deild karla í fótbolta verði leikinn á gervigrasinu í Laugardal/Þróttarvelli, í kvöld fimmtudaginn 8. maí kl. 20:30. Leikurinn átti upphaflega að vera leikinn á heimavelli Valsmanna og átti að hefjast kl. 19:15.
Keflvíkingar hafa átt í nokkrum erfiðleikum gegn Valsmönnum, en þrír leikir í röð töpuðust með markatölunni 4-0 gegn Hlíðarendapiltum á tímabili. Loks tóks Keflvíkingum að kveða niður Valsgrýluna á síðasta tímabili með 2-0 sigri á heimavelli sínum.
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflvíkinga þekkir ágætlega til hjá Valsmönnum, enda þjálfaði hann liðið um tveggja ára skeið. „Við verðum gíraðir í þennan leik. Þeir eru með mjög vaska sveit leikmanna og við þurfum að vera mjög skipulagðir og hafa trú á því sem við leggjum upp með. Það gerðum við gegn Þórsurum og tókum sigur,“ sagði Kristján að loknum sigri á Þórsurum á Nettóvellinum á sunnudag.
Framherjinn Hörður Sveinsson staldraði einnig við á Hlíðarenda um stund en hann segir erfiðan leik fyrir höndum. „Við tökum sjálfstraust úr þessum leik (gegn Þór) en þetta verður barátta, en þannig verða líklega fyrstu umferðirnar. Við verðum að berjast eins og ljón og reyna að hala inn eins mörgum stigum og mögulegt er,“ segir Hörður.