Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Er tilbúinn í landsliðið
Fimmtudagur 12. október 2006 kl. 12:53

Er tilbúinn í landsliðið

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu varð að lúta í gras á Laugardalsvelli í gær 2-1 gegn Svíum. Keflvíkingurinn Jónas Guðni Sævarsson var valinn í hópinn á síðustu stundu en kom ekki inn á í leiknum. Jónas telur engu að síður að hann sé reiðubúinn sem leikmaður til þess að láta gott af sér leiða í íslenska hópnum.

„Þetta var magnað, ég átti alveg eins von á því að vera settur inn á völlinn, maður veit aldrei hvað getur gerst, ég hefði getað farið í bakvörðinn eða á miðjuna,“ sagði Jónas í samtali við Víkurfréttir. Jónas bætti því við að það hefði engu að síður verið gaman með landsliðinu þó hann hefði ekki fengið spilatíma og sagði það hafa verið heiður að fá að spila með þessum strákum.

„Ég tel mig vera tilbúinn í landsliðið, mér finnst ég ekki endilega þurfa að vera atvinnumaður í Danmörku eða Noregi eða annars staðar til þess að koma til greina fyrir hópinn,“ sagði Jónas. Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari, hefur m.a. þjálfað Jónas þegar hann lék með U 21 liðinu en Jónas á einnig fjöldan allan af leikjum að baki með U 17 og U 19 ára liðinu.

Jónas var meðal bestu leikmanna Landsbankadeildarinnar í sumar og var áberandi í Keflavíkurliðinu. Það hefur jafnan verið viðkvæðið að áberandi leikmenn Keflvíkinga haldi erlendis og er þá skemmst að nefna þá Stefán Gíslason, Harald Guðmundsson, Hörð Sveinsson og Hólmar Örn Rúnarsson. Engum ætti því að koma á óvart ef erlend lið myndu sýna Jónasi áhuga en hann á tvö ár eftir af samningi sínum við Keflavík.

„Það kemur lítið sem ekkert til greina að leika með öðru liði en Keflavík hér heima,“ sagði Jónas og er það líkast til mörgum stuðningsmönnum Keflavíkur mikil huggun en togkraftur útlanda er mikill svo knattspyrnan í Keflavík gæti allt eins orðið að sætta sig við brotthvarf Jónasar. Leikmaðurinn hefur þó sjálfur tjáð undirrituðum að hann hefði mikinn metnað fyrir því að landa Íslandsmeistaratitli með Keflavík.

Hvað sem verður þá er næsta víst að Jónas er kominn með smjörþefinn af íslenska landsliðinu og kunnugir segja að það sé lykt sem leikmönnum langi að þefa af vel og lengi.

 

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024