Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Er kláralega betri en pabbi gamli
Laugardagur 4. október 2014 kl. 14:00

Er kláralega betri en pabbi gamli

Garðbúinn sem leikur með Keflavík og Njarðvík er spenntur fyrir Króatíu

Aron Freyr Róbertsson er einn þeirra fimm Suðurnesjamanna sem eru á leið til Króatíu með U19 ára landsliði Íslands. Aron er uppalinn Víðismaður sem gekk til liðs við Keflavík í 4. flokki. Hann lék svo sem lánsmaður með Njarðvíkingum í sumar þar sem hann lék 19 leiki og skoraði 3 mörk, ásamt því að leika með 2. flokki Keflavíkur/Njarðvíkur. Í fyrra lék hann sem lánsmaður hjá Víði í 3. deild og stóð sig vel. Aron er framherji að upplagi en kann einnig vel við sig á kantinum. Þar lék hann bróðurpart sumars með meistaraflokki Njarðvíkur. Hann segir reynsluna í sumar hafa mikið að gera með það að hann hafi náð að vinna sér sæti í U19 liði Íslands. Ferðin til Króatíu verður fyrsta ferð hans með yngri landsliðum Íslands en áður hafði Aron einungis komist í æfingahóp. „Nú er bara að nýta tækifærið. Þetta verður frábær reynsla og ferðin verður örugglega mjög eftirminnileg,“ segir Aron um fyrirhugaða ferð.

Faðir Arons, Róbert Sigurðsson, var öflugur í fótboltanum fyrir nokkrum árum en hann lék með Reynismönnum, Keflvíkingum og Grindvíkingum á sínum ferli. Róbert er uppalinn Sandgerðingur en Aron segist ekki bera miklar taugar til Sandgerðinga enda alinn upp hjá Víði en rígur hefur jafnan verið á milli liðanna. „Það eru ekki einu sinni smá tilfinningar þarna,“ segir Aron léttur í bragði. „Ég held að pabbi sé jafnvel orðinn smá Víðismaður í hjarta enda fylgt mér þar og búið í Garðinum lengi,“ bætir hann við. Saman hafa þeir feðgar þá leikið með öllum Suðurnesjaliðunum utan Þróttar í Vogum. „Við feðgarnir erum með Suðurnesin í vasanum,“ segir Aron og hlær. Hann er hárprúður með eindæmum en hann segir í léttu gríni að hárið gefi sér aukinn kraft. Þó svo hann líti út fyrir að vera rokkari þá segir hann það vera langt í frá. Nanna Bryndís, söngkona úr OMAM, er systir Arons en hann segir að hún hafi ekki ennþá náð að smita sig af rokkinu. „Mér líkar vel við tónlistina hennar og finnst hún mjög grípandi,“ segir Aron sem hlustar þó aðallega á hip-hop tónlist.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Guðmundur Steinarsson þjálfari Njarðvíkinga hringdi í Aron á mánudagsmorgun og tilkynnti honum um valið í landsliðið. Aron segir að hann hafi verið svakalega ánægður við tíðindin. Hann hafði staðið sig vel á æfingum með landsliðinu og alveg eins átt von á því að komast í hópinn. Aron er samningsbundinn Keflvíkingum og stefnir á að vinna sér sæti í liðinu á næstunni og leika í Pepsi-deildinni. Hann segist þó geta hugsað sér að spila áfram með Njarðvík en setur markið hátt og dreymir um að komast alla leið í hinn stóra heim atvinnumennskunar.

Hin hliðin:

Lið í enska?
Er með hreint liverpool hjarta.

Eftirlætis leikmaður? 
Zlatan alltaf í uppáhaldi.

Hver er efnilegasti leikmaður Suðurnesja í fótbolta karla og kvenna?
Elías már og Una í Keflavík og Helga Guðrún í Grindavík deila þessu á milli sín.

Hvað borðar þú fyrir leik?
Ristabrauð með sultu og osti er þetta vanalega.

Hvor er betri, þú eða pabbi gamli?
Ég klárlega!

Hvert er stefnan tekin í framtíðinni?
Atvinnumenskan er draumurinn.

Erfiðasti andstæðingurinn?
Gauti Gautason í KA tók mig og rúllaði mér upp í bikarnum fyrr í sumar, þannig hann er klárlega erfiðasti andstæðingurinn.

Furðulegasti samherji sem þú hefur haft?
Einar Kjartansson í Keflavík, hann er alltaf pirraður.