Er Elías næstur í röðinni?
Enn einn efnilegur sóknarmaður frá Keflavík
Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson hefur nú skorað fjögur mörk í efstu deild en þau hafa öll komið gegn Breiðablik. Hann skoraði í báðum leikjum liðanna í fyrra og bætti tveimur í safnið gegn landsliðsmarkmanninum Gunnleifi Gunnleifssyni og félögum í leiknum á mánudag. Elías þykir eiga framtíðina fyrir sér. Hann er enn einn efnilegi framherjinn sem Bítlabærinn elur af sér. Í hópi framherja sem hafa fengið tækifæri með Keflvíkingum í efstu deild ungir að árum, eru t.d: Haukur Ingi Guðnason, Guðmundur Steinarsson, Þórarinn Kristjánsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson og Hörður Sveinsson. Þessir kappar eru töluvert eldri en Elías og langt er síðan álíka efnilegur sóknarmaður og Elías hefur komið fram á sjónarsviðið hjá Keflvíkingum. Ef til vill mikil pressa að setja á ungar herðar Elíasar en sjálfur finnur hann ekki fyrir álaginu.
„Mórallinn er virkilega góður í liðinu og allir eru að ná vel saman. Það er mjög gaman hjá okkur um þessar mundir, en það skiptir töluverðu máli í boltanum“
„Mér finnst engin pressa á mér. Ég spila bara minn leik hverju sinni og geri mitt besta fyrir félagið mitt. Ég bjóst við því að spila aðeins meira með meistaraflokknum í ár. Markmið mitt var að fá fleiri mínútur og ég ætla að reyna að skora fleiri mörk en þessi tvö. Við Keflvíkingar stefnum saman á að ýta okkur frá botnbaráttunni,“ segir hinn 19 ára gamli sóknarmaður. Elías hefur verið duglegur að æfa aukalega í vetur ásamt Theodóri Guðna liðsfélaga sínum sem einnig hefur verið nefndur meðal efnilegra framherja hjá félaginu „Við höfum verið duglegir að lyfta og æfa aukalega,“ segir Elías sem er metnaðarfullur þegar kemur að fótboltanum, en hann tók sér frí frá skólanum þessa önn og æfði af krafti. Hann hefur verið í hópnum hjá U-19 landsliði Íslands og eins og svo marga unga knattspyrnumenn dreymir hann um að leika sem atvinnumaður. Í vetur æfði hann nánast sem slíkur en hann segist sjálfur hafa styrkst mikið og formið hafi aldrei verið betra. „Ég er í betra formi og hef meira sjálfstraust. Þetta er allt að koma,“ segir Elías af yfirvegun en andlegi þátturinn hefur líka styrkst hjá honum. „Ég tel mig vera orðinn þroskaðri leikmann en í fyrra. Mórallinn er virkilega góður í liðinu og allir eru að ná vel saman. Það er mjög gaman hjá okkur um þessar mundir, en það skiptir töluverðu máli í boltanum.“
Elías skorar bara gegn landsliðsmarkmanninum Gunnleifi. Öll fjögur mörk Elíasar í Pepsi-deildinni hafa komið gegn þessum fyrrum leikmanni Keflavíkur.