Er ekki vanur að skora og kann ekkert að fagna
Magnús Þór Magnússon skoraði sigurmark Keflavíkur gegn ÍA á mánudag
Magnús Þór Magnússon skoraði sigurmark Keflavíkur gegn ÍA á mánudag
Keflvíkingar unnu sterkan útisigur gegn ÍA á Akranesi síðastliðið mánudagskvöld. Hörður Sveinsson og Arnór Ingvi Traustason komu Keflavík í 2-0 áður en heimamenn jöfnuðu leikinn. Það var hins vegar Magnús Þór Magnússon sem skoraði sigurmarkið þegar skammt var eftir af leiknum. Með sigrinum er Keflavík með sjö stig í Pepsi-deildinni eftir átta leiki. Magnús var aðeins að leika sinn fyrsta byrjunarliðsleik með Keflavík í sumar en hann hefur mátt verma varamannabekkinn talsvert í sumar.
„Það er frábært að skora sigurmark, alveg einstök tilfinning. Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir okkur,“ segir Magnús sem er aðeins að skora sitt annað mark fyrir Keflavík. „Ég er ekki vanur að skora mörk enda spila ég yfirleitt aftarlega á vellinum. Það sást líka alveg að ég kann ekkert að fagna mörkum enda hljóp ég bara eitthvað,“ bætir Magnús við og hlær.
Keflvíkingar skiptu um mann í brúnni í síðustu viku. Zoran Ljubicic var leystur frá störfum og í hans stað kom Kristján Guðmundsson sem þjálfaði áður Keflavík. Magnús segir að nýjum þjálfara fylgi nýjar áherslur. „Það eru aðeins öðruvísi æfingar og áherslur. Undirbúningurinn fyrir leikinn var samt svipaður. Zoran hafði þjálfað mig í átta ár, kennt mér og hjálpað mér mikið. Ég á honum mikið að þakka.“
Það er stórleikur framundan hjá Keflvíkingum. Liðið mætir Þór Akureyri á Nettóvellinum næstkomandi sunnudag og með sigri lyfta Keflvíkingar sér frá fallsvæðinu. „Þetta er stórleikur fyrir okkur og mikilvægt að við tökum það góða út úr leiknum á Akranesi og yfir í næsta leik. Það væri frábært að vinna tvo leiki í röð,“ segir Magnús Þór sem er titlaður sem varamaður á ja.is. Er hann vanur að sitja á bekknum? „Það er hrekkur frá félögunum. Ég var ansi mikið á bekknum þegar ég var að byrja í meistaraflokki. Ég hef hins vegar ekki fengið að spila mikið í sumar og ég kann engar skýringar á því. Vonandi nýti ég tækifærið og spila mig inn í liðið.“