Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Er biðin á enda?
Föstudagur 8. júní 2007 kl. 09:12

Er biðin á enda?

Víðismenn í fantaformi

 

Víðismenn hafa farið vel af stað í 3. deildinni í knattspyrnu undir styrkri stjórn Steinars Ingimundarsonar. Steinar er mörgum knattspyrnuáhugamönnum að góðu kunnur en hann gerði garðinn m.a. frægan með Víði, KR og Leiftri frá Ólafsfirði. Víðir hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í 3. deild og sitja nú á toppi B-riðils með fullt hús stiga. Garðmenn hafa gert 13 mörk í síðustu þremur leikjum og hafa aðeins fengið á sig eitt mark. Steinar þjálfari Víðismanna segir liðið ætla sér í úrslitakeppnina en að eitt skerf verði tekið í einu.

 

,,Við erum búnir að setja okkur markmið og erum að leita eftir stöðugleika í okkar leik og reyna að gera þetta svolítið skemmtilegra en metnaðarfullt þó,” sagði Steinar. Þjálfarinn telur að KV og Augnablik ásamt Víði og BÍ/Bolungarvík verði liðin sem berjist um efstu sætin í riðlinum en það er langt og strangt sumar framundan. Margir eru orðnir óþreyjufullir eftir því að Víðismenn komist upp úr 3. deildinni og eru miklar vonir bundnar við Steinar í þeim efnum.

 

,,Stemmningin hér í Garðinum er alltaf að batna og menn hafa haft það á orði að hana hafi vantað síðustu ár. Nú er meðbyr og það virðist allt vera að smella saman, bæði leikmenn og umgjörðin í kringum allt okkar starf. Hvað hópinn varðar þá erum við með fremur lítinn hóp og það er kannski okkar helsti veikleiki og því var það nauðsynlegt á undirbúningstímabilinu að bæta við þremur erlendum leikmönnum,” sagði Steinar sem segir Víði ávallt opna fyrir góðum leikmönnum en það sé ekki á prjónunum að bæta við liðið eins og sakir standa. ,,Þegar allir leggjast á eitt er útkoman yfirleitt góð og ég treysti mínum mönnum fullkomnlega í þau verkefni sem eru fyrir höndum í sumar,” sagði Steinar en ef þess þarf með mun þjálfarinn þá taka fram takkaskóna að nýju?

 

,,Það hefur oft hvarflað að mér að taka fram skóna að nýju og ég hef oft verið með á æfingum en það er heillavænlegra fyrir félagið að hafa einhvern af ungu strákunum inni á vellinum í staðinn fyrir mig. Ég hefði ekki úthald í 90 mínútur, kannski 25 mínútur.”

 

[email protected]

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024