Enn von um sæti í 1. deild hjá Njarðvík
Njarðvik sigraði Hött 2 - 0 á heimavelli á laugardag. Það var dimmt yfir og gekk á með skúrum og smá gustur á Njarðtaksvellinum og þegar leið á fór að rigna. Heimamenn léku á móti vindinum í fyrri hálfleik, en það voru gestirnir sem áttu fyrsta færi leiksins þegar sóknarmaður þeirra skallaði naumlega framhjá.
Hattarmenn reyndu langar sendingar fram völlinn innfyrir vörn Njarðvíkinga undan vindinum einnig fengu þeir nokkrar hættulegar hornspyrnur. Vörn Njarðvíkinga hélt og þegar fór að líða á leikinn fóru þeir að sækja meira og nokkur hættulega upphlaup sem gestirnir náðu að bægja frá sér. Á 33. mín. kom fyrra markið en þá batt Rafn Vilbergsson enda á gott upphlaup Njarðvíkinga þegar hann setti boltann í netið af stuttu færi. Eftir markið komu nokkur hættuleg upphlaup áður en dómarinn flautaði til hálfleiks.
Seinni hálfleikur var alfarið Njarðvíkinga. Hattarmenn áttu erfitt uppdráttar en náðu að ógna marki heimamann tvisvar og í annað skiptið varði Ingvar mjög vel. Á 55. mín. skoraði Ísak Örn Þórðarson annað mark Njarðvikinga eftir að hafa leikið laglega á varnarmann og sent boltann í markið. Eftir markið áttu Njarðvikingar nokkur efnileg upphlaup sem ekki nýttust til að auka forystuna.
Sigur heimamanna var sanngjarn og framundan er úrslitaleikur við Reyni í Sandgerði eftir viku um hvort liðið fylgir Gróttu í 1. deild. Þetta kemur fram í frétt á vef Njarðvíkur.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson